Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:14:28 (491)

1995-10-19 19:14:28# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Hún hefur verið málefnaleg. Menn hafa saknað þess að ýmsum málum hafi ekki verið gerð nægileg skil í þeirri ræðu sem ég flutti hér. Sú gagnrýni á að sjálfsögðu við rök að styðjast og ávallt má gera betur í þeim efnum og ég skal koma að því á þeim fáu mínútum sem ég hef hér.

[19:15]

Ég get samt ekki annað en tekið það fram að sú ræða sem hér er flutt lýsir góðu samkomulagi núv. stjórnarflokka um utanríkismál og það hefur vakið athygli mína í dag að afar lítil samstaða virðist vera um utanríkismál meðal stjórnarandstöðunnar á sama tíma og í nánast hverjum einasta fréttatíma er talað um sameiningu þessara afla. Um hvað ætla þessi öfl að sameinast? Um afstöðuna til NATO? Um afstöðuna til Evrópusambandsins? Um afstöðuna til Rússlands? (Gripið fram í: Afstöðuna til Framsfl.) Eða afstöðuna til Framsfl.? Það væri náttúrlega út af fyrir sig mikill heiður fyrir Framsfl. ef það einasta sem flokkarnir gætu komið sér saman um væri afstaðan til Framsfl. Það væri alveg nýtt í íslenskri stjórnmálasögu ef flokkur yrði til út á það. En mér heyrist nú að a.m.k. fyrrv. formaður Alþb., sem var eitt sinn í Framsfl., hafi verið að reyna ... (Gripið fram í: Hver?) Fyrrv. formaður, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi verið að sveigja afstöðu flokksins mjög að afstöðu Framsfl. í utanríkismálum, þar á meðal afstöðuna til NATO. (Gripið fram í: Ég var nú í Framsókn líka.) Já, ég man ekki þá tíð og er hræddur um að það hafi verið áður en þú hafir verið kominn til nokkurs þroska eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. (HG: Ha, hvað sagðir þú?) Eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem einnig hefur sagst hafa verið í Framsfl. en ég er hræddur um að það hafi verið áður en hann hafi verið kominn til mikils þroska. (Gripið fram í: Það gæti nú verið, já.)

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og nokkrir aðrir hafa fjallað um það að lítið hafi verið talað um hafréttarmál. Ég vil ekki taka undir það en ég vil þó biðja menn að íhuga það að þessi ræða er flutt við þær aðstæður að við erum í dag og á morgun að reyna að ná til lands í þeim erfiðu deilumálum sem við höfum átt í við Norðmenn og Rússa. Varðandi það sem hér hefur verið sagt í sambandi við Norðmenn og Svalbarða bið ég menn um að minnast þess að við erum ekki að tala um samkomulag við Norðmenn eina. Við erum að tala um samkomulag á milli Íslands, Noregs og Rússlands. Ég veit að hæstv. fyrrv. utanrrh. er vel upplýstur um að það er mismunandi afstaða þessara tveggja ríkja varðandi Svalbarða og tel mig ekki þurfa að fjalla meira um það að þessu sinni. Ég vil líka benda á það að við erum að fjalla um þessi mál við þær aðstæður að það hefur verið samþykktur samningur um veiðar á úthafinu þótt hann hafi ekki tekið gildi. Þó að Smugan sé úthaf gengur þessi samningur út á það að ná stjórn á þeim veiðum sem þar eiga sér stað og annars staðar á úthafinu. Það er sá munur sem er á þessu máli nú og þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gegndi embætti utanrrh.

Ég veit ekki annað en að tiltölulega góð samstaða hafi verið um það á Alþingi að móta stefnu í þessum málum. Ég ásamt mörgum öðrum þingmönnum í fyrrum stjórnarandstöðu tók þátt í störfum svokallaðrar úthafsveiðinefndar og ég veit ekki betur en að við höfum lagt þar ýmislegt til málanna sem hafi verið gagnlegt í sambandi við stefnumörkun í þessum málum. Ég tel að við eigum að halda áfram að vinna að þessum málum með þeim hætti að náið samráð sé milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þeim og ég veit ekki betur en að við höfum gert okkur far um að reyna upplýsa utanrmn. um málið og úthafsveiðinefndina á hverjum tíma.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að það var mjög bagalegt að ekki skyldi vera samstaða innan fyrrv. ríkisstjórnar í þessu máli. Hér var minnst á samkomulag við Grænlendinga. Það er mál sem oft kom til umræðu á fyrra kjörtímabili og ég tjáði mig oft um. Ég er því sammála að við áttum að hefja viðræður mun fyrr við Grænlendinga um þessi mál. Ég hef gert mér far um að leggja á þetta áherslu og það hefur verið gert. Við höfum átt um það mjög gott samstarf við sjútvrn. Mér er ekki kunnugt um að það sé neinn ágreiningur uppi á milli utanrrn. og sjútvrn. í þeim málum að mikill vilji sé fyrir því að taka upp tvíhliða samstarf milli Íslendinga og Grænlendinga. Það er alveg nýtt fyrir mér. Við höfum átt viðræður við Grænlendinga um þetta mál nokkrum sinnum á þessu sumri en það hefur ekki leitt til niðurstöðu og Grænlendingar vilja bíða átekta í málinu. Ég geri ráð fyrir að jafnvel þótt þær viðræður hefðu verið hafnar fyrr þá hefði niðurstaðan verið svipuð og ég sé því ekki ástæðu í ljósi þess að ásaka einn né neinn í því sambandi.

Að því er varðar nokkrar fyrirspurnir sem hafa verið fluttar og sumir hverjir þeirra hv. þm. sem þær fluttu eru hér ekki viðstaddir þá var í máli nokkurra, komið inn á málefni Íraks þar á meðal í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Nú er það svo að málefnin í Írak eru mikil harmsaga og mér finnst eins og hv. þm. tali oft og tíðum um það að ríki Vestur-Evrópu og önnur ríki í heiminum, sem hafa stutt viðskiptabann á Írak, séu helsti sökudólgur í þessu máli. Ég hef látið útbúa skýrslu um þetta mál sem ég vænti að muni verða send til utanrmn. sem fyrst, þar sem koma fram ýmsar upplýsingar í sambandi við þetta mál. Ástæða er til þess að taka það fram að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ákvað 14. apríl sl. að veita undanþágu til kaupa á olíu og olíuvarningi frá Írak fyrir 1 milljarð bandaríkjadala með 90 daga millibili en áskilið var að andvirði kaupanna mundi renna í sérstaka vörslu sjóðs sem kostaði m.a. hjálparstarf samstarfsáætlunar sérstofnana Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þessu tilboði var umsvifalaust hafnað. Öllum tilraunum til þess að reyna að milda þetta mál hefur verið hafnað af þeim manni sem stýrir öllu í Írak, Saddam Hussein, sem hlaut nýlega einróma kosningu landsmanna. Hér er að sjálfsögðu um mjög erfitt mál að ræða, sérstaklega í ljósi þess að þessir aðilar hafa verið að draga fjöður yfir áform sín um framleiðslu eldflauga og annarra langdrægra flauga og þeir hafa reynt að útvega eitur til efnavopnaframleiðslu og samt sagt rangt til um áætlanir á sviði lífefnavopna. Hér er því miður við að eiga ósvífinn harðstjóra sem heldur þjóð sinni í gíslingu og svífst einskis og reynir á engan hátt á alþjóðavettvangi að verja þetta fólk. Við þær aðstæður er því miður ekki hægt að reikna með því að aðrar þjóðir í heiminum geti bjargað þessu fólki. Þessu ástandi verður að sjálfsögðu að linna í Írak.

Hér hefur líka verið komið töluvert inn á málefni Kúrda. Ég hef ávallt haft mikla samúð með Kúrdum og dáðst að þeim í reynd. Þar er ekki eingöngu við Tyrki að eiga heldur líka þessa sömu Íraka og þennan sama Saddam Hussein sem hefur ráðist grimmilegast að þeim, m.a. með gasárásum og reyndar Írani á sínum tíma sem börðu niður sjálfstæði þessarar þjóðar. Við Íslendingar höfum ávallt fordæmt árásir á Kúrda. Síðast í vor vorum við sammála þeirri ályktun sem var samþykkt af Evrópusambandinu og er í reynd fyrsta ályktunin sem Íslendingar og Norðmenn voru aðilar að. Í kjölfar þeirrar ályktunar þá drógu Tyrkir sig til baka.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurðist fyrir um kjarnorkuvopn og þá staðreynd að í sumar var fjallað allnokkuð um hvort hugsanlegt væri að einhvern tímann hafi verið geymd kjarnavopn hér á landi. Rætt hefur verið af hálfu utanrrn. við Bandaríkjamenn um þetta mál. Við höfum sent utanrmn. skýrslu um málið, sem er að vísu stutt, og ég veit af því að sú skýrsla verður tekin fyrir á næsta fundi utanrmn. Ekkert, sem hefur komið fram, gefur ástæðu til að ætla að hér hafi nokkurn tímann verið geymd kjarnavopn. Það er heldur ekkert sem hefur komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að Bandaríkjamenn hafi brotið bókstaf eða anda þess samkomulags sem við höfum gert við þá. Það er engin ástæða til að ætla annað en að þeir hafi virt vilja Íslendinga í þessum málum og ekki komið hingað með kjarnorkuvopn. Ég held að ég geti ekki svarað þessu miklu skýrar.

Hv. 19. þm. Reykv., Guðný Guðbjörnsdóttir, kvartaði undan því að kvennaráðstefnunni hefði verið gerð lítil skil og það er alveg rétt en það á svo sem við um margt annað. Þá er rétt að taka fram að við höfum haft frumkvæði um það að boða til ráðstefnu um málefni kvennaráðstefnunnar, þ.e. samráðsfund Norðurlandanna og baltnesku landanna í kjölfar Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna. Sú ráðstefna verður haldin hér á landi 23. og 24. nóv. Sú ráðstefna er haldin til þess að fylgja þessari merku ráðstefnu eftir og reyna að sameina Norðurlöndin í sambandi við það hvernig henni verður fylgt eftir. Ég vænti þess að sú ráðstefna sýni vilja okkar í því að taka niðurstöður þessarar merku ráðstefnu alvarlega. Við munum að sjálfsögðu reyna að vinna úr málinu eftir bestu getu. Þar að auki er rétt að taka fram að komið hefur verið á starfshópum á vegum Sameinuðu þjóðanna alveg nýlega um þessar stóru ráðstefnur sem hafa verið haldnar á undanförnum árum. Hinum svokallaða fjórða starfshópi er ætlað að hafa frumkvæðið að aðgerðum til að tryggja jafnrétti og bætta stöðu kvenna eftir að allsherjarþingið hefur fjallað um niðurstöðu kvennaráðstefnunnar í Bejing. Það er því margt um að vera í þessum málum og við munum eftir bestu getu reyna að fylgja þessari ráðstefnu eftir og ég vænti góðrar þátttöku þeirra þingmanna sem hafa áhuga á þessum málum.

Herra forseti. Ég hef því miður ekki tíma til að fara ítarlega út í allt sem hér var spurt um en ég vildi þó að lokum svara stuttlega hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um Evrópusambandið. Ég tel að það sem sagt er af minni hálfu um það mál sé alveg skýrt. Ég tel ekki rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef aldrei viljað útiloka að sá dagur geti ekki komið. Ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson getur útilokað það. Það er vegna þess hvað hann sér langt fram í tímann og getur fullyrt langt fram í framtíðina alveg eins og hann heldur því fram í dag að allt sem hann og flokkur hans hafi sagt um NATO sé rétt. Allt verið rétt, alveg sama þó allt sé breytt, allt rétt. Það er ekki rétt að við höfum skrifað upp á allt sem Alþfl. sagði um Evrópskt efnahagssvæði. En ég bið menn um að lesa ræður mínar um Evrópskt efnahagssvæði og ég tel að það sem ég sagði í dag sé ekki í nokkurri mótsögn við það sem ég hef áður sagt enda stóð minn flokkur að því á sínum tíma í samstarfi við Alþfl. að hefja viðræðurnar um Evrópskt efnahagssvæði. Ég veit að hæstv. fyrrv. utanrrh. man vel eftir því. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar... (Gripið fram í: Þið hlupuð svo frá.) Við hlupum ekkert frá. Það vildi bara svo til að við treystum okkur ekki til að fylgja öllu því sem hæstv. fyrrv. utanrrh. sagði í þeim málum því hann fór oft á tíðum offari, hann fór nefnilega hamförum í málinu. Það var því ekki til þess fallið að sameina þjóðina um það mikilvæga mál enda lagði fyrrv. utanrrh. enga áherslu á að sameina þjóðina, hvorki í því máli né ýmsum öðrum.

[19:30]

Ég get út af fyrir sig endurtekið fyrir hv. þm. það sem ég sagði í sambandi við Evrópusambandið, en ég hélt að það væri augljóst að ef þessi mál, að því er varðar sjávarútvegsstefnuna, verða skýrð með öðrum hætti og eitthvað nýtt kemur upp, þá er komin upp ný staða sem þarf að sjálfsögðu að ræða. Hvernig það verður nákvæmlega get ég ekki sagt, en ég get því miður ekki verið jafnsannfærður og hv. þm. um það að allt sem áður var eigi ekki eftir að breytast og menn geti fullyrt eins og hann um alla framtíð bæði að því er varðar Evrópusambandið og NATO.