Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:33:07 (493)

1995-10-19 19:33:07# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á fyrst og fremst við ef fram kemur ný stefna frá Evrópusambandinu að því er varðar sjávarútvegsmálin, ef það kemur fram að auðlindir okkar njóti sama réttar innan þess samstarfs og auðlindir annarra þjóða, þetta er okkar meginauðlind, þá er að sjálfsögðu komin upp ný staða. Þá erum við komnir á jafnréttisgrundvöll við aðrar þjóðir. Og ef okkar iðnaður nýtur sömu skilyrða og iðnaður annarra þjóða, þ.e. að okkar iðnaður sé ekki hengdur aftan í styrkjakerfi og forsjá hins opinbera, eins og nú gerist með sjávarútveg innan Evrópsambandsins, þá erum við komnir á jafnréttisgrundvöll og þá getum við farið að tala um hvort og hvenær við eigum að sækja um. Vegna þess að þá erum við komnir í allt aðra stöðu. Svo geta menn rætt um það, sem er ekki tímabært á þessu stigi, hvort að senda eigi þá umsókn eða ekki. Þá koma vissulega inn ýmis önnur atriði sem hv. þm. hefur gert að umtalsefni. En að það komi aldrei til greina, alveg sama hvernig mál þróist, það get ég ekki sagt. Ég vildi óska þess að ég gæti haft sömu sannfæringuna í þessu máli og hv. þm. og séð svona langt inn í framtíðina. Ekki sáum við fyrir fall Berlínarmúrsins á sínum tíma og það breyttist mikið í heimsmyndinni við það. En ég sagði líka í minni ræðu að ég vænti þess að meira samstarf gæti tekist yfir Atlantshafið, ekki bara um varnarmál, eins og ég veit að hv. þm. er á móti, heldur líka um efnahagsmál og viðskiptamál og þá á ég við meiri tengingu í efnahags- og viðskiptamálum milli Evrópu og Ameríku.