Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:39:57 (496)

1995-10-19 19:39:57# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ferill Framsfl. í utanríkisviðskiptamálum er þeim flokki ekki til sóma. Þeir voru andvígir aðils Íslands að EFTA og sýndu þar með mikinn skort á framsýni. Þeir leiddu reyndar í upphafi viðræðurnar um aðild Íslendinga að EES en hurfu frá því eftir kosningar þegar þeir fóru í stjórnarandstöðu, söðluðu um. Þeir fóru gjörsamlega offari með öfugsnúnum og ósönnum áróðri í því máli og voru satt að segja, ásamt með sumum alþýðubandalagsmönnum, þeir sem fóru offari í því máli og áttu þá auðvitað með þeim málflutningi, sem reynst hefur ósannur, stærstan hluta að því að sundra þjóðinni. Sjálfum tókst þeim hins vegar ekki að sameina sinn eigin flokk.

Að því er varðar hins vegar hitt málið sem ég ræddi, sem eru hafréttarmálin, þá þarf ekki hæstv. ráðherra að kvarta undan því að honum hafi ekki verið sýndur skilningur að því er varðar hina viðkvæmu samningsstöðu, en ég varaði sérstaklega við því að þeir samningar yrðu til þess að við afsöluðum okkur hinum meiri hagsmunum okkar til lengri tíma sem byggjast á Svalbarðasamningnum og beindi spurningum til hæstv. ráðherra. Hann svarar því til að minna mig á að nú erum við ekki að semja við Norðmenn eina heldur báðar þjóðirnar Norðmenn og Rússa. Einmitt nákvæmlega þess vegna er það svo að við eigum ekki í slíkum þríhliða viðræðum að ljá máls á að samþykkja einhver skilyrði af hálfu Norðmanna um að afsala okkur rétti gagnvart Svalbarðasamningnum. Ég tek orð hæstv. ráðherra á þann veg, skil þau á þann veg að svar hans, þótt loðmullulegt sé, sé á þann veg að slíkt komi ekki til greina í þessum þríhliða samningum.