Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 19:42:04 (497)

1995-10-19 19:42:04# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HJök (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hrafn Jökulsson (andsvar):

Herra forseti. Það var svo sem til of mikils mælst að hægt væri að láta hæstv. utanrrh. fá áhuga á alþjóðamálum á einni síðdegisstund og þess vegna kom mér í sjálfu sér ekki á óvart þótt svör hans við tveimur atriðum, sem ég nefndi m.a. í minni ræðu fyrr í dag, hefðu verið heldur snautleg. Hæstv. utanrrh. segir að alþjóðasamfélagið geti því miður ekki komið ,,þessu fólki``, þ.e. í Írak, til bjargar af því þar er hræðilegt fól á valdastóli sem neitar að ganga að skilmálum alþjóðasamfélagsins, þ.e. Bandaríkjamanna. Hann nefndi til ákveðið tilboð sem Írökum var gert í vor ef Halldór hefði áhuga á alþjóðamálum þá mundi hann vita að það var sýndartilboð sem Írakar hlutu undir öllum kringumstæðum að hafna. Það má spyrja: Er Saddam Hussein eini harðstjórinn í heiminum? Nú vitum við og við sáum hvernig hæstv. utanrrh. fékk beinlínis stjörnur í augun þegar hann var að tala um blessaða Kínverjana sína og maður les það í fjölmiðlum að hann hafi jafnvel látið sér sæma í nýlegri heimsókn að spyrja kínverska ráðamenn hvort hann mætti vinsamlegast eiga viðskipti við lýðræðisríkið Tævan.

Um Kúrda. Þeir eru áreiðanlega himinlifandi að vita af því að hæstv. utanrrh. Íslands ber mikla virðingu fyrir þeim. Það var, samanlögð umfjöllun hans og svar hæstv. ráðherra.

Ég spyr: Nær sú virðing hæstv. utanrrh. til hinna fangelsuðu þingmanna Kúrda, og ef svo er, hvernig hefur hæstv. utanrrh. hugsað sér að láta þessa dásamlegu virðingu sína í té?