Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:10:36 (505)

1995-10-30 16:10:36# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:10]

Frsm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Umrætt frv. fjallar aðallega um að fresta köflum VII og XIV í gildandi lyfjalögum. Þessir kaflar fjalla annars vegar um frelsi til að stofna lyfjabúðir og lyfsöluleyfi og hins vegar fjallar XIV. kaflinn um lyfjaverð.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, herra forseti, að það hafa staðið harðar deilur í þessum þingsölum um frestunarfrv. hæstv. heilbr.- og trmrh. Í frv. var gert ráð fyrir því að í stað þess að þessir tveir kaflar tækju gildi á miðvikudaginn kemur yrði gildistökunni frestað þangað til 1. júlí 1996.

Nefndin fjallaði um þetta mál og fékk á sinn fund þá aðila sem hún taldi nauðsynlegt að ræða við til þess að móta sér endanlega skoðun á málinu. Frá því er skemmst að segja, herra forseti, að það tókst samkomulag í nefndinni um það að stytta þennan frest. Í stað þess að umræddir kaflar taki gildi 1. júlí 1996 eins og hæstv. heilbrrh. lagði til hefur nefndin orðið sammála um að leggja til að þess í stað taki kaflarnir gildi 1. mars nk.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að lesa kaflann sem mestu skiptir í nefndarálitinu. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Þar sem ekki er fyrirhugað að gera breytingar sem hverfa frá þeirri meginstefnu sem mörkuð er í gildandi lyfjalögum er nefndin sammála um að mæla með samþykkt frv. en þó með þeim breytingum að VII. kafli lyfjalaga, um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi, og XIV. kafli laganna, er fjallar um lyfjaverð, taki gildi 15. mars 1996 í stað 1. júlí 1996.``

Þeir sem harðast börðust gegn frv. hæstv. heilbrrh. óttuðust einkum að tíminn yrði nýttur til þess að leggja fram breytingar á gildandi lögum sem mundu fela í sér fjarlægðartakmörk eða fjöldatakmörk í tengslum við apótek. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að rifja upp hvaða meginstefna er mörkuð í lögum að þessu leyti. Í lögunum er að finna ákvæði þar sem drepið er á heimild til þess að setja slíkar reglur sem varða fjölda íbúa bak við hvert apótek og jafnframt fjarlægðir á milli apóteka. Í nefndaráliti minni hluta frá síðasta kjörtímabili var ekkert fjallað um þetta atriði en í nefndaráliti meiri hlutans, sem hefur vitaskuld lögskýringargildi, er skýrt tekið fram að hér sé einungis átt við að slíkar reglur megi setja upp varðandi lyfjaverslanir í dreifbýlinu. Þetta er nauðsynlegt, herra forseti, að komi fram.

Undir þetta nefndarálit skrifa allir nefndarmenn nema Ögmundur Jónasson með fyrirvara.