Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:46:04 (524)

1995-10-30 16:46:04# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:46]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér hefur það nú gerst, hæstv. forseti við þessa heilbrigðisumræðu að þeir hafa mest talað um kýrnar sem minnst þekkja til þeirra og lagt út af því að vera kýrskýr. Ég vil segja við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson að ég stend heils hugar að þessu frv. og á ekki von á öðru en að þessar tvær greinar taki gildi í fyllingu tímans, 15. mars, enda í mínum huga alltaf vont að vera að hringla með gildistöku laga. Ég vona því að það geti allt saman gengið eftir og óvissu sé eytt.

En hitt vil ég segja við hv. þm. að ég ætla ekki að lofa því hér úr þessum ræðustól að flytja aldrei frv. um lyfjamál, því það er nú einu sinni helgur réttur okkar alþingismanna að hafa vit á því að skipta um skoðun og vilja breyta einhverju í samfélaginu. Þá flytjum oft lítil frv. og biðjum um breytingu á lögum. Þannig að það verður hinn helgi réttur okkar og aðstæður kunna að breytast með þeim hætti í hinum og þessum málum að menn leggja breytingar til. En sem sé, ég vona að þetta mál gangi fram eins og nefndin skilar því nú frá sér.

Hér hefur það verið umræðuefni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að framsóknarmenn væru sauðþráir. Það er rétt og það er einn meginkostur okkar að vera staðfastir, að vera sauðþrár er að vera staðfastur. Það er kannski þess vegna að okkur er trúað til að vinna góð verk í þessu þjóðfélagi. Það er öðruvísi með blessaðan Alþfl. sem alltaf ber hausnum við steininn. Og það sýnir sig að flokkurinn minnkar og minnkar eftir því sem menn halda því áfram lengur og lengur. Ég vona því að þessi gamli vinur minn, Alþfl., læri af hinu fyrra boðorði sem er öllum hollt.