Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:48:52 (525)

1995-10-30 16:48:52# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna fyrri hluta ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar, hvað varðar efnisatriði þess máls sem hér um ræðir, þar sem hann tók af öll tvímæli í þá veru að þessi rúmi fjögurra mánaða frestur yrði ekki nýttur til þess að gera endaskipti á efnisatriðum þessara tveggja kafla lyfjalaga. Það er hins vegar nauðsynlegt að árétta það í þessari umræðu og engum dettur auðvitað í hug að þessi lög frekar en önnur muni gilda óbreytt um ókomna tíð, en ég vil rifja það upp að þessi frestur á gildistíma þessara tveggja kafla var samkomulagsatriði hér á vordögum 1994 og að mörgu leyti var um fyrirmyndarverklag að ræða. Með öðrum orðum, að allir hagsmunaaðilar hefðu nokkuð langan aðlögunartíma að þessum annars róttæku breytingum á þessari tilteknu löggjöf. Þetta er gott verklag hjá hinu háa Alþingi og við eigum að gera þetta e.t.v. oftar, að hafa lengri aðdraganda að slíkum breytingum eins og hér um ræðir. Þess vegna m.a. er það enn alvarlegra en ella að á þessum tíma aðlögunar skuli menn hugsa sér að fara að hræra í málinu. Það gerir það að verkum að íbúar þessa lands munu auðvitað velta því fyrir sér þegar langur aðdragandi, ár eða meira, er að gildistíma tiltekinna laga, hvort að nokkuð sé að marka það eða hvort þess megi vænta að á þessum aðlögunartíma geri Alþingi svo og svo miklar breytingar á viðkomandi lögum. Það er hinn alvarlegi þáttur þessa mál og gerir það að verkum að kannski sjaldnar en ella höfum við svigrúm í tíma og rúmi fyrir almenning að undirbúa sig undir ný lög í landinu. Það er, held ég, nauðsynlegt að hafa mjög alvarlega í huga við þessa umræðu, virðulegi forseti.