Lyfjalög

Mánudaginn 30. október 1995, kl. 16:51:32 (526)

1995-10-30 16:51:32# 120. lþ. 19.1 fundur 21. mál: #A lyfjalög# (gildistaka ákvæða um stofnun lyfjabúða o.fl.) frv., GHelg
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur


[16:51]

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Ég kom dálítið nálægt þessu máli þegar það var lögfest og hef reyndar síðan nokkuð gert það að umræðuefni á ráðstefnu um málið, sem haldin var í Hveragerði ekki alls fyrir löngu.

Saga þessa máls er náttúrlega með slíkum endemum að það er ekki hinu háa Alþingi til sóma. Margsinnis varð að hræra í gildistöku þessara laga meðan verið var að semja þau og síðan vil ég minna menn á að það varð að setja bráðabirgðalög sumarið eftir til þess að breyta lögum nr. 108 frá 1984 og nr. 76 frá 1982, sem hreinlega hafði gleymst að taka tillit til. Vinnubrögð á borð við þetta eru auðvitað óþolandi.

Það er líka óþolandi fyrir fólkið í landinu að geta ekki treyst lagasetningu á hinu háa Alþingi. Ég var á sínum tíma á móti breytingu á þessum lögum um stofnun lyfjabúða og lyfjadreifingu. Ég taldi enga sérstaka nauðsyn bera til að breyta þeim. En við höfum orðið að lúta því að meiri hlutinn ræður að sjálfsögðu afgreiðslu mála hér á hinu háa Alþingi og lögin voru sett og þau eiga auðvitað að halda.

Einstaklingar í þjóðfélaginu hafa lagt í mikinn kostnað til þess að stofna fyrirtæki sem annast eiga lyfjadreifingu og það fólk hefur líka rétt. Mér er kunnugt um að hæstv. heilbrrh. er til alls vís í þessu máli og ég held að hv. 4. þm. Reykn. hafi orðið sér úti um smá smugu í málinu áðan í sínu máli. Ég treysti því ekki að fresturinn verði ekki notaður til að breyta þessum lögum. Og það sem kemur mér spánskt fyrir sjónir er afstaða hv. sjálfstæðisflokksþingmanna. Hvar er nú ástin á frjálsri verslun? Hvað mundu kaupmenn landsins segja ef ætti að fara að taka til hvar ættu að vera verslanir miðað við fólksfjölda, fjarlægðir og annað slíkt. Annaðhvort er verslun frjáls eða hún er það ekki. Það er auðvitað ágreiningur um þetta mál í ríkisstjórninni. Við vitum það ósköp vel. Ég vil bara lýsa því yfir hér, hæstv. forseti, að ég treysti ekki að þessi frestur verði ekki notaður til þess að gjörbreyta lögunum. Það er nefnilega annars engin ástæða fyrir þessari frestun, nákvæmlega engin ástæða. Um hana hefur heldur enginn spurt því að allir hv. þm. vita að hér er bara verið að fara í kringum málið.

Ég ætla þess vegna, hæstv. forseti, að greiða atkvæði gegn þessari frestun. Þessi lög áttu að taka gildi á miðvikudaginn. Við skuldum þeim sem trúðu því að svo verði. Og hvað sem okkur alþýðubandalagsmönnum sýndist upphaflega um framgang þessa máls, þá ber að virða þau lög sem sett eru, en hræra ekki í þeim fram og aftur svo að stórtjón skapast því fólki sem hefur treyst því að lög frá Alþingi haldi.