1995-10-31 13:31:06# 120. lþ. 22.0 fundur Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[13:31]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Bragi Sigurjónsson, fyrrverandi bankaútibússtjóri, alþingismaður og ráðherra, andaðist í fyrradag, 29. október, í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hann skorti nokkra daga í hálfnírætt.

Bragi Sigurjónsson var fæddur 9. nóvember 1910 á Einarsstöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Sigurjón Friðjónsson, bóndi, skáld og alþingismaður, og Kristín Jónsdóttir húsmóðir. Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugum 1927--1929, lauk kennaraprófi í Kennaraskóla Íslands 1931 og gagnfræðaprófi utan skóla í Gagnfræðaskólanum á Akureyri 1932. Stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri lauk hann 1935 og stundaði síðan nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands veturinn 1935--1936. Hann var kennari í Reykdælaskólahéraði í Suður-Þingeyjarsýslu 1936--1938, kennari við Gagnfræðaskólann og Iðnskólann á Akureyri 1938--1946 og stundakennari við Gagnfræðaskólann 1953--1954. Á sumrum 1938--1944 var hann bókari hjá Kaupfélagi verkamanna á Akureyri. Árið 1946 varð hann fulltrúi hjá bæjarfógetanum á Akureyri og sýslumanninum í Eyjafjarðarsýslu, starfaði þar við almannatryggingar. Því starfi gegndi hann til 1964. Útibússtjóri Útvegsbanka Íslands á Akureyri var hann 1964--1978.

Bragi Sigurjónsson starfaði mikið og lengi í Alþýðuflokknum. Hann var formaður Alþýðuflokksfélags Akureyrar 1944--1948 og 1951--1956. Í stjórn Alþýðuflokksins var hann 1950--1979. Hann var bæjarfulltrúi á Akureyri 1950--1954 og 1958--1970, var forseti bæjarstjórnar 1966--1970. Í raforkuráði, síðar orkuráði, var hann 1962--1975, fulltrúi á ráðgjafarþingi Evrópuráðs 1967--1973 og formaður tryggingaráðs 1979. Á Alþingi kom hann fyrsta sinn vorið 1957, tók þá sæti varaþingmanns, hafði verið í kjöri í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var landskjörinn alþingismaður 1967--1971 og þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra 1978--1979. Á tímabilinu 1971--1978 var hann varaþingmaður og tók þá sæti tímabundið á sjö þingum. Átti hann því sæti á 14 þingum alls auk fyrri hluta þings 1979--1980 en þá var hann ráðherra utan þings og sat á þingi. Hann var forseti efri deildar 1978. Landbúnaðar- og iðnaðarráðherra var hann frá 15. okt. 1979 til 8. febr. 1980.

Bragi Sigurjónsson var af skáldaætt. Margir nánir ættingjar hans fengust við ritstörf, ortu ljóð, sömdu sögur og skráðu ýmsan fróðleik. Sjálfur var hann afkastamikið ljóðskáld, sendi frá sér margar ljóðabækur, samdi smásögur og fékkst við þýðingar í bundnu og lausu máli. Auk þess skrifaði hann fjölda greina í blöð og tímarit, var ritstjóri tímaritsins Stíganda 1943--1949 og vikublaðsins Alþýðumannsins 1947--1964.

Bragi Sigurjónsson var jafnaðarmaður. Hugsjónir jafnaðarstefnunnar voru honum inngrónar. Hann var um áratugi traustur málsvari hennar í ræðu og riti. Hann var mörgum sinnum í framboði við alþingiskosningar fyrir Alþýðuflokkinn, fyrst í Suður-Þingeyjarsýslu 1949, en oftast í Norðurlandskjördæmi eystra, síðast 1978. Hann var stefnufastur og harðskeyttur baráttumaður, fylginn sér og trúr stefnumálum sínum. Hann afsalaði sér forsetastarfi í efri deild 1978 vegna ágreinings um stefnumál stjórnarflokka. Eftir langa og iðjusama starfsævi fékkst hann við ritstörf, aðallega ljóðagerð. Eftir hann liggur fjöldi ágætra ljóða.

Ég bið alþingismenn að minnast Braga Sigurjónssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]