Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 13:56:14 (532)

1995-10-31 13:56:14# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[13:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er afar gott að Alþingi fær tækifæri til breytinga og vonandi góðra lagfæringa á lögunum um mannanöfn en oft hefur verið deilt harðlega hér á þingi um þessi lög og sitt sýnist hverjum í ákvörðunum okkar hér á landi varðandi nöfn fólks. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að mörgum finnst að við Íslendingar höfum verið með ákveðna tvöfeldni í viðhorfum okkar til nafnamála. Þannig hefur það gerst að útlendingur hefur við það að verða íslenskur ríkisborgari orðið að taka upp nýtt nafn og eftirnafn og ekki mátt bera ættarnafn sitt sem hann hafði áður en hann varð ríkisborgari. Hins vegar hefur hann mjög fljótlega kynnst því að við höfum haft hér ættarnöfn og hinir nýju landar hafa haft leyfi til að bera ættarnafn sem að jafnvel varð til fyrir tiltölulega skömmu. Sjálfri hefur mér ávallt fundist að það væri mikilvægt að halda við þeim íslenska sið að kenna sig við foreldri með -sonur eða -dóttir og hef verið stolt af þessu fyrirkomulagi og er í hópi þeirra sem halda því á lofti sem séríslensku ákvæði og er eitt af því sem mér finnst að við eigum að verja og halda við þó á þann hátt að við tökum tillit til þess að brjóta ekki beinlínis réttindi á þeim sem hingað hafa flutt.

Við höfum verið svo ströng í þeim málum að það hefur ekki verið auðsótt mál hjá foreldrum þar sem annað er útlendingur og hitt Íslendingur að fá að hafa millinafn af erlendum toga og hef ég m.a. kynnst því úr minni fjölskyldu að það hefur verið langt leitað til að fá að taka einfalt danskt nafn sem ágætlega hljómar hér upp sem millinafn á lítilli stúlku danskrar móður. Það hefur verið erfitt að svara fólki skynsamlega sem spyr hvers vegna þetta sé látið viðgangast.

Nú er það svo að í frv. sem ég hef því miður ekki haft tækifæri til að fara gaumgæfilega í gegnum, virðulegi forseti, er verið að taka á mörgum þeirra vandamála sem hafa komið upp á liðnum árum og m.a. er fjallað í 7. gr. um millinafn og m.a. heimild til þess að breyta ættarnafni í millinafn. Það er líka verið að taka á því í 9. gr. að maður sem ber ættarnafn maka síns má bera það áfram o.s.frv. og það er alveg ljóst að við erum að viðhalda þeim sið og rétti sem verið hefur í lögum að sá er ber ættarnafn í dag fær að halda því áfram og væntanlega börnin og barnabörnin o.s.frv. Þrátt fyrir að við höfum haft þá meginstefnu að kenna okkur við foreldri þá höfum við ekki spornað gegn því að ættarnöfn eins og við þekkjum þau blómstri og þeim fjölgi sem það bera.

[14:00]

Ég skil það svo, virðulegi forseti, að í 11. gr. þar sem segir að þeim sem fyrir gildistöku laga þessara hafa fengið íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nöfnum sínum, skuli með leyfi dómsmrh. heimilt að taka aftur upp þau nöfn sem þeir báru fyrir og/eða fella niður þau nöfn sem þeim var gert að taka sér, þó þannig að eiginnöfn þeirra og millinöfn verði ekki fleiri en þrjú saman.

Einnig er í 12. gr. fjallað um að erlendur ríkisborgari, sem stofnar til hjúskapar við Íslending, megi taka upp ættarnafn maka síns, ef til er, eða kenna sig til föður hans eða móður.

Þess vegna, virðulegi forseti, ber ég fram þá spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort þessi breyting, sem tilgreind er í 11. gr., muni valda því að þeim sem koma hingað og gerast íslenskir ríkisborgarar verði nú heimilað að bera þau nöfn sem þeir koma með til landsins og ættarnöfn og hvort það verði þá þannig að þeirra börn og afkomendur muni eftir það ávallt bera þau framandi ættarnöfn. Ég spyr að þessu vegna þess að sjálfri hefur mér alltaf fundist að við ættum að stíga það spor, þó erfitt sé, að þurrka út á einhverju tímabili þessi ættarnöfn sem verið hafa í landinu, halda við þessum gróna íslenska sið, leyfa útlendingum, sem hingað koma með sín nöfn og ættarnöfn, að halda þeim meðan þeir eru á lífi, en að börn og afkomendur þeirra taki upp hinn íslenska sið. Þetta hefur verið, að mínu mati, hin eðlilega íslenska hugsun, en hins vegar hefur hún verið framkvæmd á þann hátt að við höfum verið með þetta sem ég vil kalla ákveðna tvöfeldni. Því ber ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.