Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:02:06 (533)

1995-10-31 14:02:06# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:02]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við höfum rætt þetta frv. á fyrri þingum. Ég hef átt hlut að því og ég treysti því að þingnefndin, hv. allshn., sem væntanlega fjallar um málið, líti á þær umsagnir og ræður sem fluttar voru við 1. umr. á fyrra þingi þannig að menn þurfa ekki að endurtaka hér þau sjónarmið öll sem þar komu fram.

Ég ætla að láta nægja að vísa til þeirra ábendinga sem ég gaf en koma aðeins að einu atriði sem ég held að skipti nokkru og er kannski sú breyting sem er hvað mest áberandi varðandi nafnnotkun í málinu nokkur undanfarin ár, en það er notkun tveggja eiginnafna. Það hefur færst mjög í vöxt að skíra fólk tveimur nöfnum og nota tvö nöfn í heiti manna. Það getur að sjálfsögðu verið ágætt mál og er ekkert við því að segja, en þetta er farið að raska íslenskri nafnhefð að því leyti að ekki er látið fylgja með föður- eða móðurnafn ef einstaklingur ber tvö eiginnöfn. Við verðum vitni að því oft á dag í fjölmiðlum landsins og sjálfsagt stöndum okkur sjálf að því, að kalla þann sem ber eitt eiginafn því nafni og oftast föðurnafni, það getur auðvitað verið móðurnafn einnig, að kalla hann þá fullu nafni, en ef viðkomandi ber tvö eiginnöfn að láta nægja að nefna þau og fellur þá kenninafnið niður. Þetta er afar áberandi og ég veit út af fyrir sig ekki hvernig er eðlilegt að bregðast við þessu, en mér sýnist að hér sé í reynd verið að riðla hefðinni og að seinna eiginnafn sé farið að verða eins konar ættarnafn manna í reynd eða virka með svipuðum hætti.

Ég hef velt því fyrir mér hvort eðlilegt sé að lögleiða, að ef einstaklingur heitir tveimur eiginnöfnum þá sé annað þeirra í reynd aðalnafn. Þannig held ég að þetta hafi verið tíðkað áður fyrr, án þess að vera lögboðið, og varð þá ekki til þess að raska með þeim hætti hinni munnlegu hefð varðandi nöfn manna sem nú er að verða reyndin. Ég vil því hvetja hv. þingnefnd til þess að skoða þetta sérstaklega.

Það má mjög margt um nafngiftir segja og íslenskar reglur að því leyti. Mér, eins og vafalaust öllum hér á Alþingi, er kær íslenska hefðin og við þurfum að leitast við að vernda hana án þess að ganga of langt í íhaldssemi og alveg sérstaklega gagnvart nýbúum eða innflytjendum í landið. Ég hef stundum nefnt það til gamans í þessu sambandi að þegar eiginkona mín, sem er af erlendu bergi brotin, varð íslenskur ríkisborgari, þá varð það í aðdraganda þess að henni var gert að taka íslenskt nafn. Við það var að sjálfsögðu ekkert að athuga. En undir leyfisbréfið frá dómsmrn. rituðu Jón Thors og Baldur Möller og fannst okkur dálítið skemmtileg tilviljun að sjá það.

Að því leyti hvetur þetta dæmi og mörg fleiri til þess að menn sýni nýbúum eðlilega tillitssemi, en reyni hins vegar með afkomendurnar að festa okkar ágætu hefð sem best má vera í sessi.