Mannanöfn

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:17:25 (538)

1995-10-31 14:17:25# 120. lþ. 22.2 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:17]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna ummælum hæstv. dómsmrh. þess efnis að hann telji að tölvurými hjá þjóðskránni geti ekki ráðið hver sé stefna Alþingis varðandi kenninöfn. Ég fagna þessu vegna þess að árið 1991 flutti ég brtt. og var komin með meiri hluta fyrir henni en var síðan beðin um að draga hana til baka vegna þess að þetta yrði svo mikill kostnaður og tölvurnar mundu ekki ráða við þetta. Ég varð við þeirri beiðni og ég vona því innilega að núna séu málin breytt og þessi yfirlýsing hans muni þá alla vega gefa til kynna að það verði þá ráðist í þann kostnað ef meiri hluti er fyrir tillögunni núna.

En ég vil að lokum ítreka hér að ég tel að nöfn séu óskaplega mikilvægt, persónulegt atriði eins og kirkjan hefur bent á og mjög margir aðilar hafa ítrekað hér. Mér finnst það stundum nálgast mannréttindabrot hvernig íslenska löggjöfin hefur verið í þessu máli og þess vegna fagna ég auknu frjálsræði í þessum efnum.