Fullnusta erlendra ákvarðana um forsjá barna

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 14:53:21 (547)

1995-10-31 14:53:21# 120. lþ. 22.4 fundur 92. mál: #A fullnusta erlendra ákvarðana um forsjá barna# frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[14:53]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að hér er ákaflega merkilegt mál á ferðinni og mjög mikilvægt að það fái vandaða umfjöllun í allshn. þar sem mér mun gefast kostur á að fara í smáatriðum í gegnum það. Ég hef því miður ekki haft tækifæri til þess enn en vil bara ítreka það sjónarmið mitt, sem ég held að flestir viti, að togstreita um börn í kjölfar hjónaskilnaðar fer ákaflega illa með sálarheill þeirra. Því hljóta skýrar reglur sem eru í gildi á milli ríkja að vera mjög mikilvægar. Við þekkjum hér nokkur dæmi, eins og komið var inn á hjá fyrri hv. þm., um mál sem hafa verið mikið í umræðu á undanförnum árum. Og ég held að það sé alveg ljóst að þessi samningur mun væntanlega breyta meðferð þeirra mála. En aðalatriðið er að það séu skýrar reglur og að það verði komið í veg fyrir togstreitu og óvissu varðandi réttarstöðu bæði foreldra og barna.