Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:08:08 (551)

1995-10-31 15:08:08# 120. lþ. 22.5 fundur 107. mál: #A hjúskaparlög# (ellilífeyrisréttindi) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:08]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, lýsti hér sínum innri vandamálum varðandi þetta mál og ég get svo sem að hluta til skilið það vegna þess að hv. þm. hefur villst í feni umsagna lífeyrissjóðanna um þetta mál á umliðnum árum. Þeir sem hafa sent umsagnir til hv. allshn. hafa verið seigir að þvæla málinu í þann farveg að þarna yrði þá að fylgja með líka áunnin réttindi vegna flýtireglna og hafa svo líka tekið fyrir örorkumálin. En það hefur margsinnis komið fram að hér er eingöngu talað um ellilífeyrisréttinn í þessu frv. Ég get alveg tekið undir að það má vissulega draga einhvers staðar mörk varðandi réttindi einstaklingsins. Er það gert með skilyrtum hætti í hjúskaparlögunum? Kemur það nákvæmlega fram að þótt hjón séu orðin eitt fyrir guðs og manna lögum gildi eitthvað annað um tekjur og eignir þeirra? Ég kannast ekki við það. Þess vegna kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að ekki skyldi tekið á verðmætum sem geta fallið utan skipta í nýsettum hjúskaparlögum hvað varðar áunnin réttindi í lífeyrissjóðum. Kvennalistakonur eiga að vita öðrum fremur miðað við þær stefnur og þann skilning sem þær boða á réttindum kvenna að það gerist enn í dag að konur eru heima og hugsa um börnin. Þær eru ekki að afla þeirra tekna sem þarf til þess að framfleyta heimilinu en engu að síður er hlutverk hennar aldeilis ekkert smáhlutverk. Þá spyr maður sjálfan sig: Getur það verið að það vefjist fyrir kvennalistakonum að þau réttindi sem ávinnast í lífeyrissjóðunum vegna vinnu karls sé ekki sameign þeirra hjóna? Þess eru mörg dæmi að hjón hafa skilið á háum aldri og þá hefur karlinn haft lífeyrissjóðinn en konan aðeins ellilífeyrinn. Er það réttlætanlegt? Með þeirri þróun eins og hún er á vinnumarkaðinum í dag er konan jafnvel í launahærri starfi en eiginmaðurinn og ég sé að hér er að minnsta kosti einn þingmaður, sem að býr við það að konan hefur hærri laun en hann og það er víða á vinnumarkaðinum orðið svo. Sú breyting hefur orðið og ég held að það sé bara af hinu góða. Karlmaður gæti alveg lent í þeim sömu sporum að vera heimavinnandi og að við háan aldur yrði hjúskaparslit. Þá stæði hann eftir með ellilífeyrinn en fyrrverandi eiginkona héldi lífeyrissjóðnum.

Þannig að málið er ekki flókið ef að grannt er skoðað og ég held að lífeyrissjóðirnir hafi miklað þetta fyrir fólki með mjög óbilgjörnum hætti. Lífeyrissjóðirnir eru kannski á móti þessu vegna þess að þeir telja að of mikil vinna sé lögð á þá. Þegar þetta frv. var lagt fyrir á fyrri þingum gekk frv. út á það að lífeyrissjóðirnir héldu þessari skráningu hjá sér. Svo er að vísu enn þá en hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. að þessi réttur verði ótvírætt settur inn í hjúskaparlögin en ekki sé skylda lífeyrissjóðanna að annast gæslu eða vörslu þessara áunnu réttinda. Ég þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir að hún vill öll leggja sig fram um það að miklu oki verði af mér létt vegna áralangs göngutíma þessa sérstaka máls og þetta frv. nái nú fram að ganga á hinu háa Alþingi og ég er mjög ánægður með það og vona að svo verði.