Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:18:39 (553)

1995-10-31 15:18:39# 120. lþ. 22.5 fundur 107. mál: #A hjúskaparlög# (ellilífeyrisréttindi) frv., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:18]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þetta þarfa mál. Ég veit það og skil að nú þegar eru nokkrir lífeyrissjóðir farnir að taka upp á því að greiða til maka, til beggja aðila enda þó að eignaraðildin sé skráð á þá fyrirvinnu sem greitt er af í lífeyrissjóðinn. Það tel ég hins vegar ekki fullnægjandi vegna þess að í hjúskaparlögunum er talað um það að þessi sameign geti fallið utan skipta. Við hjúskaparslit verður þá að koma afgerandi samhljóða beiðni frá báðum aðilum um að með málið skuli vera farið með þeim hætti að innunninn lífeyrisréttur í viðkomandi lífeyrissjóði komi til skipta. Ég tel að oft og tíðum á þeim sáru stundum, sem eflaust fylgja hjónabandsslitum, séu oft illvígar deilur. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þetta verði með þeim hætti að ekki leiki nokkur vafi á.

Það er líka annað í sambandi við endurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Það er búið að vera nokkuð lengi og margar nefndirnar hafa verið stofnaðar og þær hafa gert ýmsar hugmyndir og lagt fram tillögur en þær hafa flestar fengið hægt andlát þannig að ég held að það tæki nokkuð langan tíma ef þetta mál ætti eftir að verða í þinginu enn áfram um sinn.