Löggilding starfsheita í tækni- og hönnunargreinum

Þriðjudaginn 31. október 1995, kl. 15:59:59 (558)

1995-10-31 15:59:59# 120. lþ. 22.11 fundur 102. mál: #A löggilding starfsheita í tækni- og hönnunargreinum# (heildarlög) frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur


[15:59]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Virðulegi forseti. Frv. því sem endurflutt er með einni breytngu og ég mæli nú fyrir, frv. til laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, er ætlað að koma í stað laga nr. 62/1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingarfræðinga. Einnig er frv. ætlað að koma í stað laga nr. 46/1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga. Ástæða þess að ég tel þörf á nýjum lögum um starfsheiti er margþætt.

[16:00]

Í fyrsta lagi kalla tvær tilskipanir ESB sem getið er um í athugasemdum með frv. á breytingar á núgildandi reglum.

Í öðru lagi hefur borist ósk frá Félagi skipulagsfræðinga þess efnis að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögverndað.

Í þriðja lagi óskuðu samtök verkfræðinga, tæknifræðinga og arkitekta eftir endurskoðun á lögum nr. 62/1986, aðallega vegna þess mikla kostnaðar sem féll á einstaklinga sem þurfa að sækja um leyfi til að bera starfsheitið verkfræðingur, tæknifræðingur og arkitekt. Þótti sá kostnaður óeðlilegur í ljósi þess að ekki er um starfsréttindi að ræða heldur eingöngu rétt til að bera ákveðið starfsheiti.

Í fjórða lagi hefur ríkt ágreiningur um það hver hafi endanlegt úrskurðarvald um hverjir hafi rétt samkvæmt núgildandi lögum til að bera ákveðin starfsheiti.

Verði frv. þetta að lögum munu þau tryggja að samræmdar reglur gildi um hver hafi rétt til að nota starfsheiti sem falla undir svið iðnrn. auk þess sem uppfylltar verða þær skuldbindingar sem EES-samningurinn leggur á Ísland á þessu sviði.

Í 1. gr. frv. eru taldar upp þær starfsstéttir sem lögin taka til. Hér er um að ræða sömu starfsstéttir og nú eru lögverndaðar, en jafnframt er lagt til að starfsheitið skipulagsfræðingur verði lögverndað.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að réttur til starfsheitis geti stofnast með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með útgáfu leyfis af hálfu ráðherra ef menn uppfylla þau skilyrði er koma fram í 3. gr. frv. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ráðherra staðfesti erlend leyfi ef viðkomandi uppfyllir þau skilyrði sem fram koma í 4. gr. frv.

Samkvæmt 3. gr. er það skilyrði fyrir leyfi til þess að nota starfsheiti að umsækjandi hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein. Gert er ráð fyrir að viðkomandi fagfélög setji sér reglur um hvaða nám sem lokið er með prófgráðu teljist vera fullnaðarmenntun í skilningi frv. Ráðherra skal staðfesta reglur félagsins og öðlast reglurnar gildi þegar þær hafa verið birtar. Ráðherra veitir leyfi til þess að nota starfsheiti að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags ef umsækjandi að mati hans hefur hlotið tilskilda menntun.

Á grundvelli 4. gr. frv. ber ráðherra að staðfesta starfsréttindi manna sem koma frá öðrum ríkjum innan EES ef menntun þeirra uppfyllir þau lágmarksskilyrði sem koma fram í tilskipunum þeim sem tilgreindar eru í greininni. Hlutverk ráðherra er að sannreyna gildi faglegra vottorða og kanna hvort öllum skilyrðum sé fullnægt. Gert er ráð fyrir því að sett verði reglugerð þar sem þessi atriði verði nánar útfærð. Fellt er niður úr frv. frá 118. löggjafarþingi að ráðherra skuli í þessum tilvikum skylt að leita umsagnar viðkomandi fagfélags þar eð slíkt er talið geta brotið í bága við EES-reglur. Þrátt fyrir þetta er gert ráð fyrir nauðsynlegu samráði við fagfélög sem hafa sérþekkingu á því námi og störfum sem í boði eru erlendis.

Í 5. gr. frv. er ráðherra veitt heimild til þess að skera úr ágreiningi sem rísa kann um notkun starfsheita. Eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða er ekki ætlunin að breyta réttarstöðu þeirra manna sem hafa fullgild leyfi til að bera viðkomandi starfsheiti.

Herra forseti. Ég vænti þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn. og það verði með hliðsjón af EES-skyldum afgreitt á haustþingi.