Endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:43:49 (564)

1995-11-01 13:43:49# 120. lþ. 23.1 fundur 8. mál: #A endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það er gott að þessu máli er hreyft í formi fyrirspurnar og gagnlegt að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra. Ég tek undir það sem fram kom í svari hæstv. ráðherra að þörf sé á að styrkja sýslumannsembættin og færa til þeirra fleiri verkefni þó auðvitað geti verið álitamál hver þau eigi að vera. Ég held að það sé kannski þörf á því að hafa einbeittari forustu um það að eitthvað gerist á þessu sviði en sjálfdæmi sem hér heyrist að hverju ráðuneyti sé falið í málinu og síðan biðstaða eða sem sagt ekki gengið eftir því innan ákveðinna tímamarka. Ég held líka að allar spurningar um tilfærslu á embættum séu ekki aðeins viðkvæmar heldur líka mikið álitamál og því nauðsynlegt að gott samráð sé haft um það. Ég ætla ekki að fara út í að ræða þar einstakar hugmyndir sem var áður hreyft. Sem betur fer var horfið til baka með það og málið tekið í víðtækari skoðun. Fyrir þinginu liggur fyrirspurn af minni hálfu um betri aðbúnað að sýslumannsembætti á Seyðisfirði og vænti ég svars við þeirri fyrirspurn innan tíðar.