Endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:45:20 (565)

1995-11-01 13:45:20# 120. lþ. 23.1 fundur 8. mál: #A endurskoðun á verksviði sýslumannsembætta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna þeirri stefnumótun að færa aukin verkefni til sýslumannsembættanna úti um landið og nýta þær stofnanir eða þau embætti betur. Í því sambandi vil ég spyrja hverju það sætir að í fjárlagafrv. eru tekin út úr tvö embætti sem áformað er að leggja niður á næsta ári og hvernig standi á því að það hafi þá ekki verið látið eitt yfir alla ganga í þessum efnum úr því að horfið var frá stórfelldum áformum um niðurlagningu þessara embætta eða fækkun þeirra á síðasta ári eða hvenær sem það nú var uppi. Ég vil jafnframt spyrja hvort ekki sé mögulegt að hæstv. ráðherra sé tilbúinn til samkomulags um að fresta þeim áformum að leggja niður sýslumannsembættin í Ólafsfirði og í Bolungarvík og láta á það reyna hvort ekki sé jafnframt hægt að finna fullnægjandi starfsgrundvöll fyrir þau embætti með því að fela þeim aukin verkefni og nýta þau betur. Ég mótmæli því mjög harðlega til að mynda að sýslumannsembættið í Ólafsfirði sé tekið út úr og þar sé á ferðinni lakari rekstur eða síður þarfur en á við víða annars staðar í landinu. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra eða þeir flokksbræður sem hafa fjallað um þetta mál tækju með í reikninginn að samkvæmt greinargerð fjárlagafrv. sem fyrir liggur, þá á þrátt fyrir það sem hér er sagt um flutning verkefna til embættanna að leggja tvö þeirra niður á næstu árum.