Sjálfræðisaldur barna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 13:56:53 (569)

1995-11-01 13:56:53# 120. lþ. 23.2 fundur 47. mál: #A sjálfræðisaldur barna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[13:56]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Nefnd sem ég skipaði í mars árið 1993 vinnur nú að gerð frv. til nýrra lögræðislaga og er að því stefnt að leggja nýtt frv. um lögræðislög fyrir þetta þing. Meðal þeirra gagna sem nefndin hefur aflað eru umsagnir um álit ýmissa stofnana og félagasamtaka um það álitaefni sem þessi fyrirspurn snýst um, hvort rétt sé að hækka sjálfræðisaldur einstaklinga úr 16 árum í 18 ár. Nefndin óskaði m.a. eftir því að umsagnaraðilar gerðu grein fyrir þeim rökum sem þeir teldu mæla með hækkun sjálfræðisaldurs og þeim rökum sem þeir teldu mæla gegn hækkun sjálfræðisaldurs.

Umsagnar hafa þegar borist frá félagsmálastofnunum Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Akureyrar, Geðlæknafélagi Íslands, félmrn., Sálfræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi ísl. félagsráðgjafa, barna- og unglingageðdeild Landspítala Íslands og foreldrasamtökum. Í þessum umsögnum kemur fram að mjög skiptar skoðanir eru um það hvort rétt sé að hækka sjálfræðisaldur í 18 ár og hefur formaður nefndarinnar tjáð mér að í athugasemdum með frv. til nýrra lögræðislaga muni verða gerð ítarleg grein fyrir þeim rökum sem færð hafa verið fram bæði með og móti hækkun sjálfræðisaldurs. Nefndin hefur enn ekki mótað endanlega afstöðu sína til málsins og ég mun bíða með ákvarðanatöku af hálfu ráðuneytisins um það hvort lagt verður til hækka sjálfræðisaldur þar til nefndin hefur kynnt mér niðurstöður sínar og umsagnir þær sem hún hefur fengið. En ég vil þó benda á að ýmsir þeir sem mæla með hækkun lögræðisaldurs virðast byggja þá skoðun sína á vanda tiltölulega fárra einstaklinga. Frá mínum bæjardyrum séð verður maður að líta á hagsmuni allra ungmenna í landinu þegar afstaða verður tekið endanlega til þessa álitaefnis.