Skaðabótalög

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:00:54 (571)

1995-11-01 14:00:54# 120. lþ. 23.3 fundur 51. mál: #A skaðabótalög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:00]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Á næst síðasta þingi lagði sú sem hér talar fram fyrirspurn til þáv. félmrh. um jafnan rétt kvenna og karla til dæmdra bóta vegna dóms í svokölluðu hundsbitsmáli sem varðaði skaðabætur til barns á grundvelli eldri laga en núgildandi skaðabótalaga. Í svari sem birtist á þskj. 752 á 118. löggjafarþingi segir m.a. að sýnt þyki að fullyrða megi að nýju skaðabótalögin frá 1993 byggi á jafnræði kynja. Þó er ekki alveg ljóst hvort þarna er bara verið að tala um börn eða bæði börn og fullorðna. Síðan hafa nokkrir dómar fallið samkvæmt skaðabótalögunum frá 1993 þar sem konum eru dæmdar lægri skaðabætur en körlum allan sinn aldur á grundvelli þess að kynbundinn launamunur er til staðar í þjóðfélaginu nú þrátt fyrir gildandi jafnréttislög. Einn slíkur dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní 1995. Af hálfu stefnanda í því máli var því haldið fram að viðkomandi kona eigi ekki að þurfa að sæta því að bætur hennar verði sjálfkrafa fjórðungi lægri en bætur til karla á sama aldri. Með tilvísun í dóm Hæstaréttar frá 6. jan. 1995, þar sem vísað er til skýrslna kjararannsóknarnefndar sem sýna að tekjur kvenna séu almennt lægri en karla er komist að annarri niðurstöðu með eftirfarandi rökum, með leyfi forseta:

,,En til þess að dómstólum verði kleift að dæma konu jafnháar örorkubætur og um karlmann væri að ræða þarf að sýna fram á að kynferði hafi ekki áhrif á framtíðaráætlanir um tekjur sem lagðar eru til grundvallar við útreikninga á örorkutjóni. Það hefur ekki verið gert í þessu máli.``

Það er að mínu mati gjörsamlega óskiljanlegt að heimilt sé að nota kynbundnar upplýsingar um laun á þennan hátt þrátt fyrir gildandi jafnréttislög og nýsamþykktar breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar þar sem skýrt er kveðið á um að kynin eigi að njóta sama réttar í hvívetna. Því legg ég eftirfarandi fyrirspurn til dómsmrn. á þskj. 51:

,,Hyggst ráðherra leggja fram frv. um breytingar á skaðabótalögunum sem tryggi að skaðabætur einstaklinga verði óháðar launamun kynjanna? Ef svo er, þá hvenær?``