Skaðabótalög

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:10:04 (574)

1995-11-01 14:10:04# 120. lþ. 23.3 fundur 51. mál: #A skaðabótalög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:10]

Fyrirspyrjandi (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin þótt ég sé ekki alveg sátt við þau vegna þess að það er vísað í að í skaðabótalögunum sé byggt á tjónþolanum sjálfum. En dómarar virðast stundum þurfa að áætla tekjur og fara þá hiklaust í launaskrár og taka 75% af því sem karlar fá. Þannig velti ég því fyrir mér hvers vegna þeir skoði t.d. ekki hvort viðkomandi býr á Vesturlandi eða Norðurlandi eða hvort skóstærðin er þessi eða hin eða aldurinn þessi eða hinn. Hvað heimilar þeim að taka kynferði út þarna þegar þeir eru að ákvarða þessi laun?

Ég tel sem sagt alveg óhjákvæmilegt að fundin verði leið til breytingar á skaðabótalögunum sem ég vona að komi til fljótlega. Ég vil taka það fram að mér er auðvitað fullkunnugt um að allshn. hefur beðið um að farið verði yfir þessi lög, en mér vitanlega var ekki sérstaklega beðið um að þar yrði tekið á þessu vandamáli og óska eftir því að þeir verði beðnir um að athuga kynbundnar skaðabætur sérstaklega. Ég tel alveg óhjákvæmilegt að það verði fundin leið til þess að breyta þessum dómapraxís sem særir réttlætiskennd fólks og einnig að því er virðist viðkomandi dómara sem taka fram að í slíkum dómum felist engin viðurkenning á að fengin niðurstaða sé sanngjörn. Það er mjög alvarlegt ef gildandi lög og sú dómaframkvæmd sem viðurkennd er á grundvelli þeirra geta ekki talist sanngjörn og því vona ég að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn geti tekið undir með fyrirspyrjanda um að hér þurfi að koma breytt dómaframkvæmd til með breyttum lögum ef ekki vill betur.