Skaðabótalög

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:12:16 (575)

1995-11-01 14:12:16# 120. lþ. 23.3 fundur 51. mál: #A skaðabótalög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:12]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það sem fram hefur komið að sérfræðingarnir tveir sem fengu þetta verkefni fengu allvíðtækt umboð til þess að skoða skaðabótalögin og endurmeta einstaka þætti þeirra. Ég get ekki sagt fyrir um niðurstöðu af þeirra starfi en auðvitað er verið að hreyfa hér mjög stórri spurningu. Grundvallaratriði skaðabótaréttarins er það að bæta mönnum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir og ég held að það sé enginn vafi á því að með tilkomu nýju skaðabótalaganna hafi orðið veruleg framför að því er varðar þann mismun sem fyrri dómapraxís sýndi varðandi bætur til karla og kvenna. En ef taka á upp þá spurningu hvort dæma eigi mönnum jafnar bætur án tillits til þess skaða sem þeir hafa sannanlega orðið fyrir, þá er það auðvitað mjög mikil grundvallarbreyting á skaðabótarétti. En ég held að það sé mjög eðlilegt að nefndin ræði einmitt grundvallarspurningar af því tagi þegar nefndarálit sérfræðinganna liggur fyrir.