Úrbætur í fangelsismálum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:18:18 (579)

1995-11-01 14:18:18# 120. lþ. 23.4 fundur 52. mál: #A úrbætur í fangelsismálum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:18]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Það kom fram í svari hæstv. ráðherra að áætlaðar væru um 10 millj. kr. til hönnunar byggingar fangelsis á Tunguhálsi. Í frv. til fjárlaga eru áætlaðar 55 millj. kr. til fangelsisbygginga sem eiga að fara til byggingar á fjölnota skála við fangelsið á Litla Hrauni. En þessar 10 millj. sem áætlað er að fari til hönnunar fangelsis að Tunguhálsi eru bundnar, að því er mér sýnist, sölu á hlutabréfum í Bifreiðaskoðun Íslands. Verður ekki farið í þessa hönnun ef af þessari sölu verður ekki? Jafnframt langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé fyrirhugað að leggja fram nýtt frv. til laga um fangelsi og fangavist sem hefur verið rætt hér a.m.k. á tveimur síðustu þingum.