Úrræði gagnvart síbrotamönnum

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:24:59 (582)

1995-11-01 14:24:59# 120. lþ. 23.5 fundur 53. mál: #A úrræði gagnvart síbrotamönnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:24]

Fyrirspyrjandi (Þorvaldur Tómas Jónsson):

Virðulegi forseti. Undanfarin missiri hafa fréttir af ýmiss konar afbrotum, þó einkum þjófnuðum og innbrotum verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Dæmi eru um að innbúi úr húsum hafi verið rænt þegar íbúarnir voru erlendis. Einnig eru dæmi um að þjófaflokkar hafi tekið fyrir einstaka bæi á landsbyggðinni og brotist þar inn í mörg eða flest fyrirtæki í sömu ferðinni. Í einstaka tilfellum hafa fórnarlömb þessara þjófnaða, þ.e. eigendur hinna stolnu muna, viðurkennt að hafa keypt þá aftur af þjófunum til að endurheimta eigur sínar. Það virðist sem sagt vera að það sé orðinn atvinnuvegur hjá einhverjum hópi afbrotamanna að ræna hlutum til að selja fyrir peninga, innan lands eða erlendis og jafnvel þeim sem stolið var frá. Þessi afbrotafaraldur hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um það hvað sé hægt að gera til að stöðva þá sem brjóta af sér með síendurteknum hætti og valda þannig einstaklingum, fyrirtækjum og samfélaginu öllu ómældu tjóni. Jafnframt hlýtur töluverður hluti af tíma og kostnaði lögreglunnar að fara í að elta afbrotamenn sem jafnvel eru búnir að fá dóm en bíða afplánunar. Þessa krafta löggæslunnar mætti vafalaust nýta til annarra hluta.

Eins og kom fram í máli og svari hæstv. dómsmrh. við fyrri fyrirspurn eru fangelsisrými í landinu nú um 130 og von á frekari úrbótum þar. Samt sem áður munu nú vera 160--170 afbrotamenn sem hafa hlotið dóm en bíða afplánunar.

Þess vegna er þessari fyrirspurn nú, fyrir hönd Arnþrúðar Karlsdóttur, varaþingmanns, beint til hæstv. dómsmrh.:

Hvernig hyggst ráðherra beita sér fyrir úrræðum gagnvart síbrotamönnum?