Flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:41:04 (590)

1995-11-01 14:41:04# 120. lþ. 23.7 fundur 114. mál: #A flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:41]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að í umræddu nefndaráliti eru reifaðar hugmyndir um flutning tiltekinna ríkisstofnana út á land, þar á meðal Landhelgisgæslunnar. Í þessu nefndaráliti er hins vegar ekki að finna gagnagrunn til þess að byggja ákvarðanir um slíka tilfærslu stofnana á, hvorki að því er varðar mat á staðsetningu þeirrar þjónustu sem um er að ræða, kostnað né heldur að því er varðar úttekt á starfsmannamálum. Ég tel þess vegna að þessi skýrsla sé ekki grundvöllur ákvarðanatöku í þessu efni.

Ég minni síðan á að það er mjög skammt um liðið síðan endurbætur voru gerðar á húsnæði Landhelgisgæslunnar og nú er verið að flytja þar inn nýja stofnun í sama húsnæði, sem talið hefur verið að færi mjög vel á að væri í sama húsnæði og Landhelgisgæslan, þ.e. Almannavarnir ríkisins. Það er mikið umhugsunarefni hvort ríkið á að standa á þann veg að málum að leggja í mikinn kostnað við endurbætur á húsnæði og um leið og því er lokið að taka ákvarðanir um að flytja stofnanir í burtu. Ég hygg að það yrði tæplega verjandi, ekki síst á þeim tímum sem við lifum nú þar sem gæta þarf fyllsta aðhalds í rekstri.

Ég er ekki með þessu að segja að það sé útilokað að flytja Landhelgisgæsluna út á land, það getur vel komið til álita. En ég minni þó á í þessu sambandi að mjög mikilvægur og vaxandi þáttur í starfi Gæslunnar er björgunarflugið og það hefur verið skipulagt í mjög náinni samvinnu við læknavakt Borgarspítalans og öryggi þeirrar þjónustu byggist mjög verulega á þeirri samvinnu við sjúkrahúsið.

Ef flytja á Landhelgisgæsluna út frá byggðasjónarmiðum geta ýmsir staðir auðvitað komið til greina og þar á meðal Reykjanes, eins og bent er á í áliti nefndarinnar sem hér var vitnað til. En auðvitað gætu aðrir staðir einnig komið til greina. Ég hugsa að ef menn á annað borð væru að ræða um það að flytja stofnun eins og Landhelgisgæsluna út frá byggðasjónarmiðum þá teldu menn kannski ástæðu til þess að flytja hana lengra eða út fyrir Faxaflóasvæðið. Það má þannig benda til að mynda á að austur á fjörðum er ágætisaðstaða, bæði hafnaraðstaða og með nýjum alþjóðaflugvelli á Egilsstöðum, en þar skortir hins vegar á að unnt sé að koma við sambærilegri læknaþjónustu eins og núna fylgir þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar.

Niðurstaða mín er þess vegna þessi að að svo stöddu er ekki fyrirhugað að flytja höfuðstöðvar Landhelgisgæslunnar.