Flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 14:45:55 (592)

1995-11-01 14:45:55# 120. lþ. 23.7 fundur 114. mál: #A flutningur höfuðstöðva Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[14:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Svo vill til að ég átti sæti í þeirri nefnd sem á sínum tíma gerði tillögur um flutning nokkurra ríkisstofnana út á land. Það hefur lítið orðið úr framkvæmdum. Ég vil fá að benda á það við þetta tækifæri að síðan þessar tillögur voru lagðar fram árið 1993 hefur atvinnuástand í Reykjavík versnað mjög og ég verð að viðurkenna það að ég sem þingmaður Reykjavíkur er orðin afar hugsandi yfir flutningi fyrirtækja héðan úr borginni og finnst að við þurfum að skoða þau sjónarmið þegar verið er að meta flutning ríkisstofnana.

Hlutverk þessarar nefndar á sínum tíma var fyrst og fremst að benda á möguleika hvað varðar flutning ríkisstofnana. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. dómsmrh., það var ekki lagt mat á kostnað eða t.d. hvaða óhagræði flutningur hefði fyrir starfsfólk. Það er ljóst að í ríkisstofnunum er mikil andstaða við flutning, það kemur sér auðvitað illa fyrir fólk eins og reyndar reynslan hefur sýnt, þar sem slíkur flutningur hefur átt sér stað. Þarna var auðvitað um framtíðarhugmyndir að ræða, ýmsir möguleikar sem koma til greina og menn verða alltaf að meta það á hverjum tíma hvort vilji er til þess að framkvæma. En möguleikarnir eru til staðar og á sínum tíma kom ekki fram nein andstaða við það hjá starfsmönnum og fulltrúum Landhelgisgæslunnar að flytja á Suðurnes. Þeir sáu engin sérstök vandkvæði því samfara. Ef menn kynna sér rekstur Landhelgisgæslunnar þá er það m.a. þannig að skipunum er lagt tíma og tíma í hinum ýmsu höfnum landsins, en ég tek auðvitað undir það að það þarf að skoða rekstur björgunarstarfsins alveg sérstaklega í þessu samhengi.