Hvalveiðar

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:08:28 (601)

1995-11-01 15:08:28# 120. lþ. 23.8 fundur 22. mál: #A hvalveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:08]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég taka það skýrt fram að það er að því stefnt að leggja tillögu fyrir þetta þing sem nú situr. Það er einnig rétt sem hér hefur komið fram að það hefur verið unnið mjög vel að undirbúningi þessa máls og það var mjög mikilvægt að það tókst pólitísk samstaða fulltrúa allra flokka í þeirri nefnd sem skipuð var til þess að leggja á ráðin um framhald málsins.

Það breytir þó ekki þeirri stöðu að við eigum við pólitíska örðugleika að etja og þar á meðal að því er varðar sölu á afurðum og við þurfum að glíma við þá erfiðleika. Ég held hins vegar að það sé rétt eins og hér kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. að það eru ýmis ný sjónarmið að koma fram í þessu efni. Við höfum orðið varir við breytt viðhorf á Bandaríkjaþingi. Það eru líka að koma fram ný viðhorf í Evrópu og gleggri skilningur á þessum málum. Á nýafstöðnum fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkja var sérstaklega fjallað um nýtingu selastofna. Slík nýting hefur verið bannorð á vettvangi eins og þeim um mörg ár. Kanadamenn lögðu, eins og menn vita, blátt bann við nýtingu sela af tilfinningalegum ástæðum fyrir nokkrum árum, en sjá sig nú tilneydda til að breyta um stefnu. Og það markar veruleg þáttaskil að ráðherrafundur þessara ríkja skyldi marka skýra stefnu í þessu efni.

Næsti fundur sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkja verður haldinn hér á landi á næsta ári og þá er að því stefnt að taka hvalveiðar til umfjöllunar. Allt sýnir þetta að þróunin er í rétta átt þótt okkur hafi sannarlega fundist að hægt hafi miðað.