Veiðar og rannsóknir á túnfiski

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:17:53 (604)

1995-11-01 15:17:53# 120. lþ. 23.9 fundur 81. mál: #A veiðar og rannsóknir á túnfiski# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:17]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Það vakti sérstaka athygli mína þegar fjölmiðlar fjölluðu um túnfiskveiðar Japana þá þeir voru hér í Reykjavíkurhöfn og fjölmiðlamenn reyndu að ná tali af þeim til að fá frekari upplýsingar um veiðar og vinnslu og aflamagn að þeir voru þöglir sem gröfin. Á sama tíma hafa skip annarra þjóða, portúgölsk, spönsk og fleiri verið hér að versla við ágætt fyrirtæki, Hampiðjuna, og hafa keypt hér flottroll. Það hefur ekki staðið á því að selja þeim þessi veiðarfæri. En jafnhliða því að þau hafa látið úr höfn þessi erlendu skip til veiða á Reykjaneshrygg þá hafa Íslendingar fylgt með skipunum, bæði til að kenna þeim á veiðarfærin og jafnvel líka að lóðsa þau á þau veiðisvæði sem gæfu mesta möguleikana. Það sýnir nú hvernig menn halda á og ég tel að það sé full ástæða til að við höldum vel á okkar málum. Hins vegar vöktu lokaorð ráðherra athygli mína að Japanir væru væntanlegir hingað á næsta ári til þess að ræða um túnfiskveiðar sínar. Vonandi fáum við þær upplýsingar þótt það sé auðvitað hart eins og réttilega kom fram hjá ráðherra. Við stjórnarþingmenn verðum auðvitað að gæta fjárhagsmála eins og við mögulega getum. Það er hins vegar hart að þurfa að leita til annarra þjóða til að fá aðstoð við að leita að fiski sem er kannski í nálægð okkar fiskimiða.