Aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:49:40 (618)

1995-11-01 15:49:40# 120. lþ. 23.12 fundur 64. mál: #A aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér er sérstök ánægja að því að svara þessari fyrirspurn. Eins og fyrirspyrjandi rakti veitti fyrrv. ríkisstjórn 3 millj. kr. vegna aðgerða í sambandi við kjarasamningana til að draga úr launamun karla og kvenna. Það er skemmst frá því að segja að ekki er búið að ráðstafa þessum peningum nema að mjög litlu leyti. Á vegum ráðuneytisins er starfandi nefnd undir forustu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hefur nefndin það verkefni að skoða leiðir til þess að draga úr launamun karla og kvenna. Einkum er nefndin að skoða kynhlutlaust starfsmat sem leiðir af því markmiði. Áformað er að nefndin skili skýrslu til mín á næstu vikum. Starfsmat sveitarfélaganna er eina kerfisbundna starfsmatið sem framkvæmt hefur verið á Íslandi og nefndin taldi mikilvægt að skoða það út frá því hvernig kvennastörfin hafa komið út úr því mati og hefur látið þýða starfsmatið og senda það utan til sérfræðings í gerð kynhlutlauss starfsmats sem rannsakaði starfsmatskerfið út frá sjónarhorni kynhlutleysis og kom með leiðir til úrbóta.

Það er áformað að álitið birtist sem einn viðauki í skýrslu nefndarinnar og þeim hluta þessara 3 millj., sem teknar voru frá í þessu sambandi af síðustu ríkisstjórn, hefur verið varið til þessarar nefndar eða til þess að greiða kostnað sem nefndin hefur stofnað til. Hinum peningunum hefur ekki verið eytt.

Ég hef óskað eftir tillögum frá nefndinni um ráðstöfun þessa fjármagns og nefndin hefur farið fram á að fá að leggja þær tillögur fram í kjölfar útkomu skýrslunnar, þ.e. það er búið að verja einhverjum fjármunum, litlum þó, í nefndarstarfið og síðan kemur nefndin til með að gera tillögur um hvernig afganginum eða meiri hlutanum verði varið. Það er fyrirsjáanlegt að nefndin mun gera tillögur um áframahaldandi aðgerðir til þess að draga úr launamun kynjanna og væntanlega verður fjármununum varið til þess að kosta þessar aðgerðir.

Ég vil ekki taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að þetta sé eitthvert sérmál kvenna. Kynbundinn launamunur er ósómi og við eigum að taka á því máli. Ég tel það mjög brýnt og ástandið eins og það er núna er algerlega óviðunandi. Hins vegar hef ég engan milljarð til þess að verja í þessu sambandi og ég hygg að þetta verði ekki lagað í neinum hvelli. Þetta lagast ekki nema með samstilltu átaki margra aðila. Ríkisvaldið á að ganga þar á undan að mínum dómi. Síðan verða aðilar vinnumarkaðarins að taka þátt í átakinu líka. En þetta átak tel ég að sé alveg óhjákvæmilegt að gera.