Aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:53:48 (619)

1995-11-01 15:53:48# 120. lþ. 23.12 fundur 64. mál: #A aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KH
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:53]

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó að það sé náttúrlega ekki alveg ljóst enn þá hvað verði um þetta fé en ég er ekki í nokkrum vafa um að fundnar verða leiðir til að eyða því þegar skýrslan er komin frá nefndinni sem fjallar um þetta. Ég veit náttúrlega ekki frekar en hæstv. ráðherra hvað það muni kosta að framkvæma starfsmat eða þær aðgerðir sem þarf í framhaldi af því. En mér er alveg ljóst að það mun verða nokkuð kostnaðarsamt og verður sjálfsagt meiri kostnaður en sem nemur þessari upphæð og það þarf þá að finna meira fé til þess.

Vegna orða hæstv. ráðherra um að þetta sé ekki sérmál kvenna þá er ég honum innilega sammála. Þetta er auðvitað mál sem bæði karlar og konur og þjóðfélagið allt á að taka á en vandamálið snýr náttúrlega með beinum hætti að konum því að það er á þær sem hallar en ég fagna svo sannarlega sívaxandi skilningi hæstv. ráðherra á þessum málum.