Höfundalög

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 10:33:16 (621)

1995-11-02 10:33:16# 120. lþ. 25.1 fundur 86. mál: #A höfundalög# (EES-reglur) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[10:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið stuttorður um þetta mál því það var lagt fram á þingi í vor og kynnt þá og hv. menntmn. tók málið til meðferðar og fjallaði um það en tími vannst ekki til að gefa þinginu álit sitt á frv. En frv. er um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum. Sérstök nefnd á vegum menntmrn. samdi þetta frv. og tekur frv. mið af aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með honum skuldbatt Ísland sig til að aðlaga íslensku löggjöfina hinu almenna verndarstigi hugverka í Evrópusambandslöndunum.

Að málinu hefur verið unnið af sérfræðingum og þeir leggja til þær breytingar sem er að finna í frv. Það er samið með hliðsjón af tilskipunum Evrópusambandsins á sviði höfundarréttar og hliðstæðra réttinda tengdum höfundarrétti. Tilgangur frv. er sá að samræma íslenska höfundalöggjöf ákvæðum þeirra.

Meginefni frv. er að verndartími höfunda er lengdur úr 50 árum miðað við næstu áramót eftir andlát í 70 ár. Listflytjendur og framleiðendur njóta nú þegar 50 ára verndartíma samanber ákvæði laga nr. 57/1992 og er það í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins.

Þá eru og nýmæli í frv. þessu að sé um að ræða verk sem ekki hafa verið birt áður og höfundurinn er ókunnur er höfundarrétturinn látinn haldast í 70 ár frá tilurð verksins en birting slíkra verka er talin með öllu óheimil samkvæmt gildandi lögum.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja efni frv. frekar eins og ég sagði. Það var kynnt hér í vor. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.