Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 10:36:14 (622)

1995-11-02 10:36:14# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[10:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það frv. sem liggur hér fyrir var upphaflega samið af nefnd um mótun menntastefnu sem Ólafur G. Einarsson, þáv. hæstv. menntmrh., skipaði 11. mars 1992. Nefndin skilaði áfangaskýrslu í janúar 1993 þar sem gerð var grein fyrir helstu hugmyndum hennar og lokaskýrslu skilaði nefndin síðan í júlí 1984. Frv. til laga um framhaldsskóla var lagt fram til kynningar á 117. löggjafarþingi 1993--1994. Í kjölfar umræðna og umsagna voru gerðar nokkarar breytingar á frv. og var það síðan lagt fram aftur nokkuð breytt á 118. löggjafarþingi 1994--1995 en hlaut ekki afgreiðslu.

Eins og menn muna frá síðasta þingi þá snerust umræður um skólamál einkum um grunnskólann og grunnskólafrv. sem lá fyrir á sl. vetri og Alþingi samþykkti síðan 25. febr. sl. Er unnið að framkvæmd grunnskólalaganna nú í samræmi við þær ákvarðanir sem teknar voru af Alþingi 25. febr. sl.

Ég lít þannig á að þetta frv. til laga um framhaldsskóla sé liður í heildarendurskoðun á þeim lagaramma sem gildir um skólastig okkar. Grunnskólinn hefur þegar fengið formlega afgreiðslu hér á þingi með nýjum lögum. Hér er frv. til laga um framhaldsskóla. Unnið er að því að semja almenna löggjöf um háskólastigið og ýmsa aðra skóla sem þarf að líta til og sífellt þurfa að vera umræður um það hér á landi hvernig við skipum lagaramma utan um skólastarfsemi okkar.

Ég tel að það frv. til laga um framhaldsskóla sem hér liggur fyrir sé gott frv. og að það hafi í þeim meðförum sem það hefur fengið frá því það var lagt fram hér fyrst 1993--1994 tekið þeim breytingum sem eðlilegar eru þegar mál sem þessi eru til umræðu. Ég minni á að mikill áhugi er á því víða að þetta frv. nái fram að ganga. Til dæmis var í samningum aðila vinnumarkaðarins, sem voru gerðir á sl. vetri, sérstaklega hvatt til að þetta frv. til laga um framhaldsskóla yrði samþykkt á hinu háa Alþingi því að aðilar vinnumarkaðarins binda ekki síst miklar vonir við þau ákvæði í frv. sem lúta að starfsmenntun og þátttöku atvinnulífsins í skólastarfi.

Að loknum stjórnarskiptum í vor fól ég alþingismönnunum Sigríði A. Þórðardóttur og Hjálmari Árnasyni að fara yfir frv. og skiluðu þau niðurstöðum sínum með bréfi til menntmrn. í ágúst sl. Síðan hefur málið verið skoðað af embættismönnum í menntmrn. og það fært í endanlegan búning eins og það liggur fyrir á borðum þingmanna.

Ég vek athygli á því að í frv. er að finna þá greinargerð sem upphaflega fylgdi því og er hún birt á bls. 15--24 í frv. eins og það liggur hér frammi og þá sjá menn þau grundvallarviðhorf sem lágu að baki frumvarpssmíðinni og þau sjónarmið sem fram komu í nefndinni um mótun menntastefnu sem vann að þessu starfi.

Í því starfi sem unnið hefur verið síðan má segja að ekki hafi verið hróflað við þeirri grundvallarstefnu sem mörkuð var í upphafi og lá að baki frumvarpsgerðinni. Hins vegar hefur verið tekið á ýmsum atriðum sem menn telja að til betri vegar horfi. Gerð er grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á milli þinga í upphafi athugasemda við lagafrv. og þar eru talin í 17 liðum þau atriði sem hróflað hefur verið við í meðferð frv. áður en það var lagt fram hér og nú. Menn geta þar séð með hvaða hætti hefur verið unnið að þessu máli á undanförnum vikum og mánuðum.

Ég vek sérstaklega athygli á því sem varðar 16. gr. frv. þar sem fjallað er um námsskipan. Sú grein hefur tekið dálitlum breytingum frá því að frv. var lagt fram á þingi sl. vetur. Þar hefur verið skilgreint betur hvernig námsbrautum skuli háttað. Til sögunnar er komin ný braut, listnámsbraut, sem ekki var tíunduð sem sérstök námsbraut í fyrri gerð frv. Einnig vek ég athygli á því að þau ákvæði sem voru í þessari grein og lúta að stúdentsprófi og lokaprófi úr framhaldsskóla hafa verið tekin út úr greininni og færð yfir í 24. gr. frv. þar sem segir: ,,Lokapróf úr framhaldsskóla, svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum, er veitt geta rétt til frekara náms`` o.s.frv. Þar er getið um lokaprófin en ekki í 16. gr. eins og áður var.

Þá vek ég athygli á því að í greininni er síðan almennt ákvæði þess efnis að stofnun nýrra námsbrauta sé háð samþykki menntmrh. og að menntmrh. setji reglugerð um framkvæmd ákvæða þessara greina. Það er alveg ljóst að þessa grein verður einnig að skoða í samhengi við 17. gr. þar sem fjallað er nánar um námsbrautirnar og hvernig þær skuli skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins. Síðan er því lýst hvernig þessum greinum er skipt á milli sviða.

Ég tek fram um þetta mál að ég lít þannig á að innan gildandi námskrár og innan þess ramma sem skapaður er hverju sinni með fjárveitingum og þeim reglum sem menntmrn. setur og liggja til grundvallar samþykki menntmrh. er það að sjálfsögðu á verksviði hvers skóla fyrir sig að skipuleggja námsbrautirnar og koma með hugmyndir um það hvernig að þeim málum verði staðið. Það er mikilvægt að menn hugi að þessu og hafi þetta svigrúm skólanna í huga þegar þessi mál eru rædd hér og sú grundvallarskoðun sem lýst er í þessu frv. þannig að svigrúm skólanna er skýrt innan þess ramma sem námskráin setur og innan þess ramma sem fjárveitingar mæla fyrir um og þær reglur sem menntmrn. setur á grundvelli þessara reglna.

Ég vil einnig láta þess getið sérstaklega í þessu sambandi og þegar ég fjalla um þær breytingar sem orðið hafa á frv. frá því það var síðast kynnt. Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða um grundvallarmál, þau hafa verið svo rækilega kynnt á Alþingi áður að ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að rekja forsöguna eða grundvallarsjónarmiðin. Þau eiga að vera þingmönnum skýr og koma einnig mjög rækilega fram í athugasemdum við frv. og liggja þar fyrir. En ég vek athygli á því að ný grein hefur komið inn í frv. og það er 35. gr. þar sem segir:

,,Framhaldsskóla er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að stofna í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa fullorðinsfræðslumiðstöð, sbr. 33. og 34. gr. Samstarfsaðilar skulu gera með sér samning um starfsemina. Nánari ákvæði um þessa starfsemi skal setja í reglugerð.``

[10:45]

Þessi grein er staðgengill fyrir lagabálk sem við samþykktum á Alþingi árið 1992, ef þannig má að orði komast, og fjallaði um fullorðinsfræðslu. Það hefur komið í ljós að síðan var ekki unnt að hrinda þeim lögum í framkvæmd af ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér. Ekki náðist það samkomulag á milli aðila sem að málinu áttu að koma sem var forsenda þess að unnt yrði að hrinda lögunum í framkvæmd. Þegar við stóðum frammi fyrir því í menntmrn. að ræða hvað til bragðs skyldi taka í ljósi laga sem voru í gildi og skyldna sem hvíldu á ráðuneytinu að endurskoða lögin þá varð það að ráði að leggja til við hið háa Alþingi að þessi lög frá 1992 yrðu felld úr gildi og þessi grein, 35. gr., kæmi í raun í staðinn fyrir þann lagabálk og það yrði unnt að taka á málum með þeim hætti sem hér segir og tryggja fullorðinsfræðslu á grundvelli þessarar greinar.

Ég vek athygli á þessu sérstaklega. Ég tel sjálfur að hér sé um mjög farsæla lausn á viðkvæmu og vandasömu máli að ræða og ég vil skýra frá því að ég ræddi þetta atriði sérstaklega á undirbúningsstigi málsins við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og einnig við fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands, sem eiga aðild að þessu máli lögum samkvæmt, og hef ekki orðið var við andstöðu af þeirra hálfu.

Þarna er farið inn á nýjar brautir og einnig má segja að það sé gert þegar litið er á 41. gr. frv. Ég vil einnig gera hana sérstaklega að umræðuefni þar sem segir:

,,Einkaaðilar eða samtök geta stofnað og rekið skóla á framhaldsskólastigi.

Menntmrh. getur veitt slíkum skólum viðurkenningu á grundvelli laga og reglugerða er varða framhaldsskóla og rekstur þeirra að uppfylltum skilyrðum sem sett skulu í reglugerð.

Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé. Alþingi ákveður framlag ríkissjóðs til þessara skóla. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntmrh. og rekstraraðila skólans um fjárveitingu, rekstur, stjórnun og eigur eftir því sem við á.``

Þarna er farið inn á þá braut að mælt er fyrir um heimild til menntmrn. til þess að veita skólum viðurkenningu á því námi sem þeir hafa að bjóða. Það hafa orðið töluverðar umræður um það í þjóðfélagi okkar á undanförnum árum þegar sífellt fleiri námskeið og sífellt meira nám er í boði, ekki aðeins af hálfu hins opinbera heldur einnig einkaaðila, sem ég tel æskilega og skynsamlega þróun, hvort það ætti að standa þannig að málum að menn sæktu um leyfi til menntmrn. og fengju leyfi til þess að efna til slíkra námskeiða eða bjóða slíkt nám. Sú leið er ekki farin í þessu frv. heldur er þannig tekið á málinu að aðili sem býður upp á námskeið eða nám getur leitað til menntmrn. og óskað eftir viðurkenningu þess á því sem einstaklingurinn eða félag hefur í boði til þess að ráðuneytið segi álit sitt á því og veiti viðurkenningu ef svo ber undir þannig að viðskiptavinirnir hafi þá vissa tryggingu sem ætti að felast í slíkri viðurkenningu ef þeir telja að hún sé einhvers virði. Ráðuneytið mundi að sjálfsögðu ekki veita slíka viðurkenningu nema að undangenginni athugun eða undangengnu mati á því sem í boði er. Það er nýmæli í lögum að slík heimild sé fyrir hendi.

Ég vek einnig athygli á því að felld er úr frv. 42. gr. sem var í frv. og laut að Samvinnuskólanum og Verslunarskóla Íslands. Það þótti ekki eðlilegt að mæla fyrir um það sérstaklega í lögum að athuguðu máli að hafa ákvæði um einkaskóla eins og Samvinnuskólann, sem raunar er orðinn samvinnuháskóli og á frekar heima undir almennum lögum um háskólastigið en í framhaldsskólalögum, það þótti ekki eðlilegt að hafa sérstök lagaákvæði um þessa einkaskóla og tekið er á málinu í 3. mgr. 41. gr. þar sem segir:

,,Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntmrh. og rekstraraðila skólans um fjárveitingu, rekstur, stjórnun og eigur eftir því sem við á.``

Það er á þessum forsendum sem yrði þá samið við þessa skóla um fjárveitingar og gengið frá því á grundvelli samnings hvernig þeir störfuðu eins og þarna segir, rekstur, stjórnun og annað slíkt sem að þeirra málum lýtur. Þetta er málefni sem ég tel að einnig sé samstaða um. Ég ræddi þetta við forustumenn þessara skóla og þeir telja að þessi skipan fullnægi því starfsöryggi sem skólarnir þurfa að hafa. Ekki er ástæða til þess að hafa sérstakar lagagreinar um einkaskóla en hins vegar heimildir til þess að semja eins og þarna er gert.

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða fyrir mig að fara frekari orðum um þetta mikla mál. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða, sjálft framhaldsskólastigið sem er eitt af mikilvægustu skólastigum okkar og mjög brýnt að þannig sé um hnútana búið að það geti starfað á þeim forsendum sem eru bestar og ég tel að þær forsendur séu mótaðar í þessu frv.

Herra forseti. Ég bað um, og vona að það hafi verið gert, að lögð yrði fram í þingsalnum greinargerð um verkaskiptingu milli framhaldsskólanna. Ég lít á að það sé hluti af þessu máli þó það sé ekki lagasetningaratriði. Þar eru tíundaðir allir framhaldsskólar í landinu og því lýst hvernig verkum er skipt á milli þeirra. Þetta plagg er ekki skuldbindandi fyrir neinn, þetta er lýsing á stöðunni eins og hún er og einnig er það tekið fram þar sem við á hvaða hugmyndir kunni að vera um breytingar. Þetta plagg hefur verið sent skólastjórnendum allra framhaldsskólanna og þeir beðnir um álit á því sem þar kemur fram. Ég tel mjög æskilegt að umræður um það fari fram á sama tíma og Alþingi fjallar um þetta frv. þannig að menn átti sig glögglega á því hvernig verkaskiptingu á milli framhaldsskólanna er háttað, hvar er breytinga þörf að mati menntmrn. og síðan fái ráðuneytið umsagnir um þetta mál og geti fjallað um það á grundvelli viðhorfa sem koma frá skólanum og þá verði auðveldara að taka ákvarðanir sem hafa heildarhagsmuni í huga en ella væri. Ég lít á það sem lið í þessu skipulagsstarfi sem nú fer fram varðandi framhaldsskólann.

Ég vek athygli á því að í 31. gr. frv. er lagt til að komið verði á fót svonefndum kjarnaskólum en kjarnaskóli veitir grunnmenntun til starfa í viðkomandi starfsgrein og hefur með höndum endurmenntun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Kjarnaskóli hefur forgöngu um að þróa markvisst námsefni, námsskipan, kennsluaðferðir og námsmat. Hann aðstoðar aðra skóla sem að einhverju leyti veita menntun á sama sviði og leiðbeinir þeim um skipulag náms, námsefni og kennsluhætti. Kjarnaskóli þarf að uppfylla tiltekin skilyrði hvað varðar húsnæði, búnað og hann þarf að hafa hæfa og vel menntaða stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn. Skólinn þarf að vera það vel búinn að hann geti að öllu leyti séð um menntun á viðkomandi sviði og brautskráð nemendur með fyllstu réttindi sem unnt er að fá í skóla.

Til þess að koma þessum áformum í framkvæmd hafa verið teknar saman í menntmrn. hugmyndir til umræðu um verkaskiptingu milli skólanna. Þessar hugmyndir hafa eins og ég sagði áður verið sendar skólunum til umsagnar og að fengnum umsögnum er ætlunin að ganga frá heildstæðu yfirliti um námsframboð einstakra skóla og verkaskiptingu milli þeirra. Þetta plagg hefur verið lagt fram hv. þm. til glöggvunar.

Ég vil einnig láta þess getið í þessu samhengi að innan framhaldsskólanna er unnið að mati á skólastarfinu, sérstaklega í Kvennaskólanum í Reykjavík sem hefur gert samning við menntmrn., svonefndan stjórnarsamning. Liður í þeim samningi er að gerð verði úttekt á öllu starfi Kvennaskólans og hugmyndin er sú að þessi úttekt og þau gögn sem þar koma fram verði síðan grundvöllur fyrir úttektum á öðrum skólum. Ég hef haft tækifæri til þess að kynnast því nokkuð vel hvernig staðið hefur verið að málum í Kvennaskólanum og m.a. sótt fundi í þeim ágæta skóla um þetta mál og ég tel að þar sé vel að verki staðið og það sé nauðsynlegt að minnast þessa ágæta starfs þegar við ræðum frv. og minnast þess að frv. setur heildarramma utan um skólakerfið. Það liggur fyrir plagg um verkaskiptingu á milli skólanna og í einum af framhaldsskólunum er nú unnið að úttekt á innra starfi skólans sem gæti orðið fyrirmynd að svipuðum úttektum á öðrum skólum og leitt okkur enn frekar inn á þá braut að gera þetta mikilvæga skólastarf markvissara og árangursríkara fyrir þá sem það stunda. Það hlýtur að vera okkur höfuðmarkmið með þessum lagatexta og öllum þessum aðgerðum okkar að skólarnir séu betur í stakk búnir til að veita þá þjónustu sem við viljum að þeir veiti nemendum og unglingum og þar með þjóðinni allri.