Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 11:23:34 (627)

1995-11-02 11:23:34# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[11:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Frv. það til laga um framhaldsskóla sem hér er til umræðu er um margt ágætt og framför frá því sem verið hefur. Það byggir á hugmyndum nefndar um mótun menntastefnu sem Ólafur G. Einarsson, fyrrv. menntmrh., skipaði snemma árs 1992. Frv. hefur tekið ákveðnum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram, flestum til bóta og sumum til mikilla bóta.

Mig langar að nefna það sem ég tel mestu máli skipta í frv. Það skiptir miklu máli að lögin taka til alls skólastarfs, frá lokum grunnskóla og að háskólanámi, þar með talið bóknám, listnám, verknám, þ.e. starfsnám, alls kyns sérhæft nám, endurmenntun, fullorðinsfræðsla o.s.frv. Í því er ekki verið að fjalla um aldurshópa nema í undantekningartilvikum, svo sem þegar kveðið er á um að jafnaldrar fylgist að upp úr grunnskóla og framhaldsskólinn sé síðan með tilboð fyrir alla, enda sé um að ræða framhaldsskóla fyrir alla, réttur allra til náms. Grunnskólinn er 10 ára skóli og síðan tekur framhaldsskólinn við.

Árlegur starfstími verður, ef þetta frv. verður að lögum, eigi skemmri en 9 mánuðir og kennsludagar eigi færri en 150. Kostur er að opnað er á að lengja skólann, e.t.v. með því að áfangaskólar bjóði upp á sumarannir. Hugmyndir hafa sveiflast nokkuð á á þessu sviði, þ.e. hvort negla eigi skólann við 9 mánuði eða lengja hann til samræmis við nágrannalöndin og fækka þá skólaárunum í þrjú. Með þessu orðalagi er búið að opna á ákveðinn sveigjanleika, og tel ég að það sé vel, m.a. til þess að flýta fyrir þeim í námi sem vilja gera það og geta og til stuðnings við þá sem þurfa að taka upp nám eða bæta við sig. Og einnig til að mæta þörfum ungs fólks til að fá eitthvað að gera ef engin er sumarvinnan.

Skólanefndirnar breytast samkvæmt þessu frv. þannig að í stað þess að þar sitji sjö, tveir úr hópi starfsmanna, einn nemandi, þrír frá viðkomandi sveitarfélagi og einn skipaður af menntmrh. í það að verða fimm af nefndinni, tveir fulltrúar viðkomandi sveitarfélaga og þrír fulltrúar menntmrh. Rökin eru þau að eðlilegt sé að menntmrh. hafi meiri hluta þar sem reksturinn sé algerlega á ábyrgð ríkisins, sveitarfélögin komi einungis inn í stofnkostnað með 40% á móti 60% ríkisins. Einnig hafa skólameistarar kvartað yfir því að þeim finnist óþægilegt að vera með undirmenn sína sem yfirmenn í skólanefndum, starfsmenn skólanna og e.t.v. nemendur. Þessir aðilar verða hér eftir með áheyrnaraðild. Mér finnst þetta vera gild rök fyrir breytingu og ættu að gera stjórnunina markvissari og ábyrgari, ekki síst þar sem skólanefndum er einnig ætlað að samþykkja skólanámskrár, gera þriggja ára áætlanir og marka þannig áherslur í starfi.

Gert er ráð fyrir breytingu hvað varðar stofnkostnað heimavista. Ríkið greiddi þær alveg en samkvæmt frv. eiga sveitarfélögin að koma inn í það dæmi með 40% eins og við skólabyggingar. Ekki verður séð að þetta breyti neinu um hag nemenda, en þetta verður til þess að taka þarf upp verkaskiptasamning ríkis og sveitarfélaga varðandi byggingu skólamannvirkja og það væri kannski fróðlegt að fá að vita hvað er fyrirhugað í þeim efnum.

Í gömlu lögunum er ákvæði um að menntmrh. sé heimilt að skipta landinu upp í framhaldsskólasvæði. Það er að okkar mati gott ákvæði, en ég veit ekki hvort það hefur verið notað. Mér sýnist að ef það yrði gert gætu skólarnir passað betur upp á að öll tilboð séu í gangi á öllum svæðum landsins þannig að þeir geti haft með sér meiri verkaskiptingu. Það er alltaf hætta á að skólarnir verði of líkir eins og reyndar hefur orðið þróunin. Við þröngan fjárhag fara þeir allir í sama bóknámsfarið.

Samkvæmt frv. getur ráðherra heimilað að tveir skólar séu með sameiginlega skólanefnd, en það er ekkert sem skyldar skólana til samstarfs. Hvað tryggir að tilboð verði í gangi fyrir þá sem þurfa eitthvað annað? Þess er vænst samkvæmt frv. að skólarnir sérhæfi sig, en ekkert kemur fram um það hvernig sú sérhæfing á að þróast. Á t.d. samstarfsnefnd samanber 5. gr. að gegna því hlutverki?

Skólameistarar verða samkvæmt frv. ráðnir til 5 ára í senn og er það í takt við það sem hefur verið að gerast annars staðar í ríkiskerfinu. Það er e.t.v. nauðsynlegt að ráðning rofni með þessum hætti til að tryggja að menn velti því fyrir sér hvort skipta þurfi um stjórn og jafnframt yrði þetta aðhald fyrir skólastarfið og það má gera ráð fyrir því að skólameistarar legðu sig þá enn frekar fram.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir því að inntökuskilyrði verði inn á hinar mismunandi brautir skólanna. Aukin námsráðgjöf og stuðningur ásamt því að inntökuskilyrði verði inn á brautirnar ætti að tryggja það að námið verði markvissara og brottfall minna, enda verði þá tryggt að valkostir verði fleiri en nú er og inntökuskilyrðin yrðu afar breytileg eftir brautum. T.d. virðist mega gera ráð fyrir því að í einhverjum tilfellum verði frekar litið til þess hvað viðkomandi nemandi fékk í handavinnugreinum en í stærðfræði við lok grunnskóla og er það vel.

[11:30]

Inntökuskilyrði inn á brautirnar verða bundin í reglugerð. Hér er um afar stórt atriði að ræða varðandi þróun framhaldsskólans og mjög mikilvægt að sátt verði sátt um það og því teljum við mikilvægt að sú reglugerð verði smíðuð í samstarfi við menntamálanefndir þingsins. Ég held að það sé nokkuð jákvætt að taka inn inntökuskilyrði því að það verða möguleikar á að flytja sig á milli brauta af aðstæður breytast eins og áður sagði með aukinni námsráðgjöf og stuðningi sem gert er ráð fyrir í frv.

Gert er ráð fyrir styttri og lengri starfsnámsbrautum sem þróaðar yrðu í samráði við fulltrúa atvinnulífs, vinnuveitendafélög, verkalýðsfélög og svokölluð starfsgreinaráð. Illa hefur gengið að byggja upp verkmenntakennsluna undanfarin ár vegna þess að hún er a.m.k. 50% dýrari en bóknámsbrautirnar þannig að sparnaðurinn hefur leitt til brottfalls þeirra sem ekki hallast að bóknámi eða stefna ekki að stúdentsprófi. Málið er að lokaprófið, sem gjarnan skal vera stúdentspróf, hefur fyrst og fremst með það að gera að framhaldsskólinn hefur boðið upp á einhæft nám, fyrst og fremst bóknám af því að hitt hefur verið svo dýrt. Vonandi breytist það með nýjum lögum en ný lög geta þá varla verið forsenda fyrir meiri peningum í verknámið. Ákvæði um launagreiðslur fyrir nema í starfsnámi sbr. 32. gr. þarf að athuga betur. Ekki er um venjulega vinnu að ræða, a.m.k. getur vart verið reiknað með því að nemendum séu að jafnaði falin regluleg störf á vinnustað þar sem gerðar eru sömu kröfur og til almennra starfsmanna fyrirtækisins. Líklega er hér verið að horfa til iðnnema og þeirrar hefðar sem er fyrir launagreiðslum í þeim geira. Hins vegar verða menn líka að muna eftir því að nú á að hugsa upp á nýtt, bjóða upp á styttri brautir á ýmsum sviðum og þá horfa e.t.v. greiðslur öðruvísi við.

Í gömlu lögunum er ekki sams konar ákvæði. Þar er gert ráð fyrir því að skólanefnd hafi heimild til að gera samning við iðnmeistara, fyrirtæki eða stofnun um að annast tiltekna þætti verklegrar menntunar í samstarfi við framhaldsskóla. Einnig er gert ráð fyrir því að ráðherra setji reglugerð sem kveði á um námssamninga, réttindi og skyldur o.s.frv. Ég vildi gjarnan spyrja í framhaldi af því hvers vegna var það fyrirkomulag ekki notað og þá kannski að fá nánari skýringu á því hvernig þetta er hugsað. Ég veit að á Dalvík er nokkur reynsla fyrir starfsnámi á vinnustöðum í fiskvinnslunámi og þar hefur nemum ekki verið greitt fyrir að vera á vinnustöðum að læra vinnubrögð og á vélar undir eftirliti fagmanna í greininni enda hefur verið litið svo á að um nám væri að ræða og kennari í greininni hefur skipulagt starfsnámið og fylgt því eftir inn á vinnustaðina þannig að það yrði sem faglegast og fjölbreyttast. Ef fiskvinnslan hefði átt að greiða öllum hópum laun er ástæða til að óttast að minni alúð hefði verið lögð við kennslu og fjölbreytta þjálfun á vinnustað en nemunum frekar att út í hefðbundna færibandavinnu.

Hvað með minni fyrirtæki sem eru í sérvinnslu ýmiss konar og þróunarstarfi? Það þarf að vera alveg skýrt að um nám sé að ræða en ekki varavinnuafl. Þetta er atriði sem ég hefði talið að væri full ástæða til þess að taka nánar fyrir í nefndinni og býst við að fulltrúi Þjóðvaka í menntmn., Svanfríður Jónasdóttir, muni drepa á þetta mál þar.

Varðandi áherslur í skólanámi sem eru gamaldags má benda á það til upplýsingar í þessari umræðu að þær hafa ekki bara með lög að gera því að í fjárlagafrv., sem liggur fyrir þinginu núna, fá landbúnaðarskólarnir 90 millj. kr. meira í ár en sjávarútvegsskólarnir og maður veltir fyrir sér hvers konar menntastefna það er. Fullorðinsfræðsla og endurmenntunarákvæði frv. eru mjög mikilvæg, það eru greinar 33.--35. og eru þar á ferðinni mjög áhugaverðir og spennandi möguleikar. Bæði er gert ráð fyrir öldungadeildum og endurmenntunarnámskeiðum sem haldin eru í samræmi við faggreinafélög og stéttarfélög, atvinnurekendur og aðra hagsmuna- og áhugahópa. Þannig er stefnt að því að framhaldsskólarnir verði eins konar fullorðinsfræðslumiðstöðvar í héraði og að nýttur verði sá kennarakostur, aðstaða og tækjabúnaður sem er fyrir hendi. Það er afar mikilvægt að þetta gangi eftir og að þeir aðilar í landinu, sem eru með námstilboð fyrir fullorðið fólk eða þá sem lokið hafa hefðbundinni skólagöngu, noti skólana og nýti þá þekkingu sem þar er til staðar. Þetta styrkir skólana og treystir tengsl þeirra sem starfa við það umhverfi sem þeir starfa í. Það styrkir byggðir landsins.

Sjútvrn. hefur t.d. um langt árabil verið með námskeið fyrir fólk sem vinnur í sjávarútvegi. Þessi námskeið hafa verið utan og ofan við allt skólastarf í landinu. Þar hafa kennarar verið fluttir á staðina án þess svo mikið sem kanna hvort sú þekking sem miðla á er til staðar á viðkomandi stað. Þetta veit ég að hefur farið í taugarnar á þeim sem hafa verið að reyna að halda úti fullorðinsfræðslu og endurmenntunartilboðum úti á landi. Verkalýðsfélögin hafa hins vegar átt ágætt samstarf við skólastofnanir og ýmis námskeið fyrir sína umbjóðendur.

Varðandi reksturinn á skólanum sbr. 39. gr. tel ég að þær reglur eða það reiknilíkan sem verið er að þróa og stendur til að nota samkvæmt reglugerð til að reikna út kennslukostnað skólans sé af hinu góða. Skólarnir vita þar með á hverju þeir eiga von og á hvaða forsendum þeir geta gert áætlanir sínar út frá því. Reyndar finnst mér margt benda til þess að bæði sé stefnt að því að skólarnir geti skipulagt sig betur og eins að eftirlit með skólastarfinu geti orðið markvissara. Einföldun á brautakerfinu sbr. VII. kafla um námsskipan ásamt skýrum inntökuskilyrðum á brautir, útgáfu námskráa og aukinni námsráðgjöf ætti að auðvelda bæði nemendum og foreldrum þeirra og jafnvel stjórnmálamönnum að skilja kerfið og átta sig á þeim möguleikum sem það býr yfir og það er stór kostur. Það hve kerfið hefur verið flókið hefur orðið til þess að foreldarar hafa átt erfitt með að fylgjast með því sem börn þeirra hafa verið að fást við og þar með hefur í einhverjum tilfellum skort á það aðhald sem foreldrar hefðu viljað geta haft með námi barna sinna. Einfaldara og auðskiljalegra kerfi þar sem skilaboðin um möguleika og kröfur eru skýrari er betur til þess fallið að hjálpa foreldrum við að styðja börn sín til þroska. Auðvitað er það til bóta að sem flestir átti sig á kerfinu og geti þannig sýnt skólanum áhuga og aðhald. Það ætti líka að rjúfa þá einangrun skólanna sem fram kom í skýrslu OECD að talin væri mikið vandamál í íslensku skólakerfi