Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:00:11 (629)

1995-11-02 12:00:11# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:00]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Virðulegi forseti. Undirstaða alls skólastarfs er skýr markmiðssetning. Uppeldis- og menntunarmarkmið framhaldsskólans þurfa að endurspeglast í námsskipulagi framhaldsskólastigsins, námskrá framhaldsskólans, skólanámskrá, starfsháttum einstakra skóla og starfi kennara með nemendum. Fyrstu skrefin í nauðsynlegri stefnumótun fyrir framhaldsskólastigið hafa þegar verið stigin með vinnu við það frv. sem hér er til umfjöllunar en mikil vinna er fyrir höndum hjá þeim aðilum sem fá það hlutverk að vinna að áframhaldandi mótun og uppbyggingu þess. Það hlýtur að vera kappsmál þjóðinni allri að framhaldsskólinn festist ekki í fortíðinni heldur takist á við breyttar þjóðfélagsaðstæður. Í framhaldsskólana sækir hópur ólíkra nemenda hvað varðar undirbúning, þroska, áhugasvið og námsgetu. Talsvert skortir á að skólarnir geti sinnt margvíslegum þörfum þessa hóps. Gildandi lög gera ráð fyrir að hver sá sem lýkur grunnskólanámi eigi rétt á skólavist á framhaldsskólastigi. Þetta lagaákvæði hefur af yfirvöldum menntamála verið túlkað á þann veg að nemendur eigi rétt á að hefja hvaða nám sem er í framhaldsskólanum, án tillits til undirbúnings og árangurs í grunnskóla. Afleiðing þessarar stefnu er sú að margir nemendur eru lengi að finna sér nám við hæfi eða flosna upp frá námi. Stúdentsprófsbrautir hafa um langt skeið haft mest aðdráttarafl í hugum nemenda og foreldra. En því miður vegnar mörgum nemendum illa í námi á þeim brautum. Námstími þessara nemenda er oft lengri en námskrá gerir ráð fyrir og margir hætta námi ár hvert án skilgreindra námsloka.

Almennt menntunarhlutverk framhaldsskólans verður að efla og framhaldsskólinn þarf á markvissan hátt að stuðla að því að dýpka skilning nemenda á sjálfum sér og samfélaginu, svo sem sögulegum forsendum, atvinnuháttum, menningu og listum, náttúru og umhverfisvernd, stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi, samskiptum, samvinnu, fjölskylduábyrgð og einstaklingsskyldum.

Ég vík örfáum orðum að aga í tengslum við framhaldsskólafrumvarpið. Í íslensku samfélagi ríkir meira aga- og aðhaldsleysi en víða í nágrannalöndum. Í framhaldsskólum endurspeglast aðhaldsleysi m.a. í lélegri skólasókn og miklu brottfalli og flutning nemenda á milli skóla samfara tiltölulega lágu útskriftarhlutfalli. Skólar eru í eðli sínu íhaldssamar stofnanir og hlutverk framhaldsskóla er m.a. að vera ákveðin kjölfesta í lífi uppvaxandi kynslóðar. Framhaldsskólar þurfa að beita öllum tiltækum ráðum til að styðja við nemendur og halda þeim að námi þann tíma sem þeir eru skráðir í skólann. Nám í framhaldsskóla leggur mikla ábyrgð á herðar nemendum, mun meira en þeir eiga að venjast í grunnskóla. Nemendum stendur til boða ráðgjöf frá yfirstjórn skólanna, námsráðgjöfum og umsjónarkennurum en endanleg ákvörðun um námsval er í höndum þeirra sjálfra. Það er brýnt að auka stuðning við framhaldsskólanema til muna og á margvíslegan hátt, m.a. með því að efla hlutverk umsjónarkennara. Sérhver framhaldsskólakennari þarf að taka ábyrgan þátt í að veita framhaldsskólanemum nauðsynlegt aðhald og stuðning í námi. Skipuleggja þarf vinnutíma framhaldsskólanema betur þannig að þeir njóti leiðsagnar og handleiðslu kennara í lengri tíma árlega og vinnuálagi á nemendur verður að jafna betur yfir allan starfstíma skólans.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á framhaldsskólafrumvarpinu frá því að það var lagt fram á þinginu sl. vetur. Ráðherra hefur þegar gert grein fyrir þeim breytingum svo að ég mun ekki fara nánar yfir þær. En helstu einkenni frv. eru: Skýr stefna um markmið, skipulag og framkvæmd náms. Aukin fjölbreytni í námsframboði þar sem uppbygging öflugs starfsnáms er forgangsverkefni. Bætt tengsl skóla og samfélags, t.d. með upplýsingamiðlun til almennings um skólastarf og árangur þess. Einnig vil ég nefna aðild fulltrúa atvinnulífs að stefnumótun, stjórnun og framkvæmd starfsnáms. Aukið sjálfstæði skóla og öflugra innra starf þar sem lykilhugtökin eru gæðastjórnun og skólanámskrá. Fjölgun kennsludaga, samræmd lokapróf í tilteknum greinum, reglubundið mat á árangri skólastarfs jafnt einstakra skóla sem einstakra námsgreina eða námsþátta á landsvísu. Markvisst rannsókna- og þróunarstarf.

Frá því að framhaldsskólafrv. var fyrst lagt fram til kynningar á útmánuðum 1994 hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Veigamest þeirra er eflaust sú breyting sem gerð var er frv. var lagt fram í fyrrahaust þegar fallið var frá fyrirhugaðri lengingu skólaársins úr níu mánuðum í tíu og lágmarksfjöldi kennsludaga var færður úr 160 í 150 daga. Ég verð að játa að ég sé mjög mikið eftir þessum tillögum úr frv. Líta ber á menntakerfi okkar sem hluta af alþjóðlegri heild. Gildir það jafnt um innihald og árangur skólastarfsins. Ef nemendur annarra þjóða hafa fengið nægan undirbúning til framhaldsnáms við 18 eða 19 ára aldur er full ástæða fyrir okkur að endurskoða þá stefnu að halda nemendum í framhaldsskólum fram að tvítugu. Þar með yrði almennur rammi um grunn- og framhaldsskólann hérlendis ekki verulega frábrugðinn því sem gerist annars staðar.

Einnig ber að líta til þess að sérhæft nám færist nú í auknum mæli yfir á háskólastig hér á landi sem annars staðar. Með því að stytta framhaldsskólann um eitt ár með lengingu skólaárs, betri nýtingu tíma og fjölgun skóladaga, mætti flýta því að nemendur geti tekist á við markvissan starfsundirbúning að loknu framhaldsskólanámi. Frekari rök fyrir styttingu framhaldsskólans er að finna í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu.

Í mínum huga horfir sú breyting til framfara og framtíðar og ég tel raunar að líklegt sé að í náinni framtíð komist menn að þeirri niðurstöðu að stíga beri þetta skref.

Hér á landi ljúka u.þ.b. 35% árgangs stúdentsprófi en aðeins u.þ.b. 10% útskrifast af starfsnámsbrautum framhaldsskólanna. Ástæður eru margvíslegar. Líklega vegur sú staðreynd mikið að íslenskt atvinnulíf hefur fram til þessa lagt lítið upp úr sérhæfðum starfsundirbúningi við ráðningar starfsmanna enda ekki verið kostur á margvíslegum starfsundirbúningi innan skólakerfisins. Íslenska skólakerfið stendur frammi fyrir miklum vanda. Einkum hvað varðar þá ofuráherslu sem lögð er á bóknám og á sér að nokkru leyti sögulegar skýringar. Hjá öðrum þjóðum er lögð megináhersla á uppbyggingu svokallaðrar millimenntunar og almennt er talið að það sem helst auki á framleiðni og afköst í þjóðfélagi sé öflugt kerfi starfsmenntunar á framhaldsskólastigi. Krafa til menntakerfis vestrænna þjóða er að engin ung manneskja fari út úr skólakerfinu án þess að hafa lokið skilgreindu námi. Jafnvægi milli sérhæfingaleiða á framhalds- og háskólastigi er mikilvæg forsenda þess að tryggja félagslegan stöðugleika samfélagsins. Öllum þarf að standa til boða möguleikinn á sérhæfðu námi, ekki eingöngu þeim sem hafa hæfileika til að stunda háskólanám. Mikilvægi framhaldsskólastigsins verður seint ofmetið. Gildir það bæði fyrir almenna menntun þjóðfélagsþegnanna og hina sérhæfðu menntun til undirbúnings fólks til þátttöku í atvinnulífi eða til áframhaldandi náms.

Á þetta þríþætta hlutverk framhaldsskólans er lögð megináhersla í framhaldsskólafrv. Í grunn- og framhaldsskólalögum er lagður sá menntunargrunnur sem hver einstaklingur byggir á allt sitt líf. Þess vegna þarf íslensk þjóð að leggja mikinn metnað og vinnu í að skilgreina og skipuleggja grunn- og framhaldsskólanámið. Með nýjum grunnskólalögum og því frv. sem hér er til umræðu hafa verið stigin stór framfaraskref í þessum efnum. Enn er mikil vinna eftir við nánari útfærslur, einkanlega námskrárgerð og uppbyggingu starfsnáms. Það er langtímaverkefni að þróa flókið kerfi starfsnáms á framhaldsskólastigi á þeim veika grunni sem við byggjum á í dag. Þar gilda engar töfralausnir. Upphafið að þeirri þróun er opin og hreinskilin umræða um það hvert skal stefna. Ég nefni það sérstaklega að ýmsar tilraunir kunna að vísa okkur veginn. Tilraun um breytt nám í bókiðngreinum er fyrsta tilraun hér á landi til að leiða saman í skólastarfi fulltrúa atvinnulífs og skóla þannig að báðir aðilar beri sameiginlega ábyrgð á námi nemenda. Námið hefur verið endurskipulagt. Námstími nemenda skiptist með reglulegum hætti milli skólanáms og vinnustaðanáms. Áhersla er lögð á gagnkvæmt eftirlit skóla og vinnustaða með námsframvindu nemenda og gerðar eru tilraunir með breytta starfshætti í kennslunni. Endurmenntun kennara og ráðgjöf við þá er hluti af verkefninu og m.a. fólst endurmenntun þeirra í því að starfa tiltekinn tíma úti í fyrirtækjunum. Þannig er stefnt að því að auka tengsl atvinnulífs og skóla, bæði í stjórnun verkefnisins og samskiptum skóla og fyrirtækja í gegnum nemendur, kennara og leiðbeinendur í fyrirtækjum.

Einnig vil ég nefna aðra tilraun um breytt fyrirkomulag starfsnáms sem er fyrirhuguð fræðslumiðstöð bílgreina sem á að vera hluti af hinum nýja framhaldsskóla í Borgarholti. Þar er ætlunin að fulltrúar atvinnulífs hafi mun meira um skipulag og stjórnun að segja en tíðkast hefur í skólakerfinu til þessa og að þeir muni í samráði við fulltrúa hins opinbera stjórna deildinni og skipuleggja starf hennar. Það er líka stefnt að því að grunn- og endurmenntun sé á sama stað þannig að þekking og tækjabúnaður nýtist fyrir alla nemendur á þessu sviði hvort heldur eru byrjendur eða þrautreyndir sérfræðingar. Vonir standa til að með þessu fyrirkomulagi megi tryggja að nýjungar í faginu komist eins skjótt og auðið er inn í grunnnám nemenda.

Ég vil gera að umtalsefni helstu áherslusvið fyrir nýtt starfsnám. Auðvitað mætti nefna mjög margt og sumt af því hefur þegar komið fram í umræðunum, en ég nefni t.d. umönnunarstörf, þ.e. umönnun barna, aldraðra og sjúkra, störf í sjávarútvegi, matvælaframleiðslu og þar má nefna fullvinnslu sjávarafla, lagmetis, drykkjarvöru- og sælgætisiðnað, ferðaþjónustu, nám fyrir verslunarfólk, nám fyrir fólk í verksmiðjuiðnaði og vöruframleiðslu og svo mætti lengi telja. Ég vil sérstaklega svara vangaveltum Kristínar Ástgeirsdóttur um það að í frv. sé sérstök áhersla á starfsnám í iðngreinum. Það er mikill misskilningur. Þvert á móti er í frv. verið að leggja áherslu á allt starfsnám, bæði stutt og langt og sérstök áhersla er lögð á stuttar námsbrautir.

Náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um stefnu og framkvæmdir er skilyrði þess að samstaða náist um starfsnám á framhaldsskólastigi. Við frumvarpsvinnuna var tekið að nokkru leyti mið af starfsmenntakerfum Dana og Þjóðverja en gæði og skipulag starfsmenntunar í þessum löndum nýtur mikillar athygli og viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Það er nauðsynlegt og brýnt að hefja nú þegar vinnu við námsbrautir á tilteknum sviðum í náinni samvinnu við samtök atvinnurekenda og launþega og ég legg áherslu á að ekki verði hafist handa um skipulagningu og framkvæmd nýs náms fyrr en fyrir liggur mat á forsendum fyrir starfrækslu nýrrar námsbrautar og þar með talið samkomulag aðila vinnumarkaðar um viðurkenningu námsins.

Ég vík örfáum orðum að gæðastjórnun í skólum en það sem mestu ræður um árangur skólastarfsins, burt séð frá mismunandi einstaklingum, eru stjórnunarhættir, fagmennska kennara, stefnumörkun og heildarskipulag skólastarfsins, svo og sá andi sem ríkir í skólanum. Lagt er til að í hverjum skóla verði teknar upp aðferðir til að meta skólastarfið þar sem m.a. verður lagt mat á kennslu og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans. Slíkar aðferðir eru ekki nýjar af nálinni því að í meira en áratug hefur á alþjóðavettvangi verið lagt út af aðferðum altækrar gæðastjórnunar í skólaumbótum. Á fimm ára fresti verða síðan sjálfsmatsaðferðir skólans metnar af utanaðkomandi aðila. Mat á skólakerfinu og einstökum þáttum þess verði eflt á næstu árum til að afla áreiðanlegra upplýsinga um þætti eins og gæðastjórnun skóla, námsárangur og námsferil nemenda, kennsluhætti og áhrif þeirra á námsárangur, samskipti í skólum og tengsl heimila og skóla. Með því að beina sjónum að ýmsum þáttum í innra starfi skólanna fæst heildarmynd af skólastarfinu eins og það er á hverjum tíma.

[12:15]

Að síðustu vík ég nokkrum orðum að kennarastarfinu og kennaramenntuninni. Fyrirsjáanlegt er að kröfur til kennarastarfsins munu aukast verulega á komandi árum samfara stóraukinni þekkingu á eðli náms og kennslu, víðtækri þróun á sviði fjarskipta og tæknimiðla ýmiss konar og auknum samskiptum þjóða í milli. Grunnmenntun kennara þarf að taka mið af breyttum tímum, m.a. hvað varðar hlutverk kennara og endurmenntun sem þarf að vera fastur liður í starfi hvers kennara. Aukin samvinna kennara, kröfur um staðgóða þekkingu í kennslugreinum, svo og almennri og greinabundinni kennslufræði, kröfur um færni í verkstjórn og almennum samskiptum við aðila innan og utan skólans og ótal margt fleira eru atriði sem taka þarf á varðandi grunnmenntun kennara. Hluti af ábyrgðarskyldu fræðsluyfirvalda gagnvart almenningi er að tryggja að til kennslu veljist einungis hæfir einstaklingar. Í þessu efni er ábyrgð kennaramenntunarstofnana mikil.

Eitt af einkennum kennarastarfsins fram að þessu hefur verið einangrun kennarans í starfi. Þetta er að breytast og með tillögum um gerð skólanámskrár og að skólar skuli innleiða aðferðir til að meta innra starf sitt er lögð áhersla á aukna samvinnu alls starfsfólks skólans. Engu að síður er það staðreynd að í kennslunni sjálfri, skipulagningu hennar og mati á árangri í daglegu starfi reynir umfram allt á kennarann sem einstakling. Kennsla sem sinnt er af kostgæfni er krefjandi starf, eins konar list. Kennarinn þarf að gefa sig að kennslunni af heilum hug ef starfið á að bera árangur og takast á að tendra áhuga nemenda. Kennarinn þarfnast með reglubundnum hætti faglegrar og andlegrar endurnýjunar. Af þessum sökum, svo og þeirri staðreynd að þekking í nútímaþjóðfélagi vex óðfluga er afar brýnt að allir starfandi kennarar stundi fjölbreytilega endurmenntun til að viðhalda þekkingu sinni og starfshæfni. Gefa þarf kennurum hvar sem þeir starfa kost á að fylgjast með fræðilegri umræðu um menntamál og nýjungar á kennslusviði sínu. Ennig verður að tryggja kennurum aðgang að margs konar endurmenntunarnámskeiðum.

Með kröfunni um aukin tengsl skóla og samfélags standa kennarar frammi fyrir því að veita upplýsingar um eigið starf, m.a. í samræmi við aðila utan skólans, svo sem foreldra og aðila atvinnulífs. Á þeim vettvangi skapast aukið tækifæri til að kynna almenningi fagleg sjónarmið í kennslu og afla kennarastarfinu aukinnar virðingar. Þegar krafist er skilnings samfélagsins á mikilvægi kennarastarfsins verða kennarar einnig að vera reiðubúnir að gangast undir það að aðilar utan skólans leggi mat á störf þeirra. Kennslan og árangur hennar skiptir verulegu máli fyrir fjölda fólks í þjóðfélaginu og slíkt leiðir af sér auknar kröfur um ábyrgðarskyldu skóla og fræðsluyfirvalda. Æ fleiri þjóðir eru að vakna til vitundar um mikilvægi þess að til kennslu veljist karlar og konur úr röðum hæfustu einstaklinga þjóðfélagsins. Ný grunnskólalög og frv. til laga um framhaldsskóla miða að því að efla og styrkja skólastarf á Íslandi. Aðeins með samstilltu átaki kennara og fræðsluyfirvalda verður hægt að tryggja þeim breytingum sem ný lagasetning um þessi skólastig gerir ráð fyrir farsæla höfn.

Ég þakka góðar og málefnalegar umræður um þetta mikilvæga mál sem hér er á dagskrá og vænti mikils af samstarfi nefndarmanna í menntmn. um málið.