Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:22:02 (631)

1995-11-02 12:22:02# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. byggir á ýmsum jákvæðum markmiðum um tilgang og þróun skólastarfs sem ég held að sé nú ekki mikill ágreiningur um í íslensku samfélagi og flestir hafa á undanförnum árum verið sammála um að það væri æskilegt að gera breytingar eða ná fram þróun sem til að mynda fæli í sér nánari tengsl atvinnulífs og menntunar og samfélagsins í heild og skólanna eða menntastofnananna. Það er frekar að ágreiningur komi upp um leiðir að því marki og svo er kannski spurning hvort stefnan sem tekin er í hinum einstöku efnisgreinum frv. er allaf í samræmi við hin fögru fyrirheit og háleitu markmið. Ég tel ýmislegt mjög jákvætt í markmiðssetningu frv. og ýmsar einstakar efnisbreytingar eru þar að mínu mati tvímælalaust til góða. Ég get nefnt sem dæmi það ákvæði að afnema æviráðningu skólameistara. Ég tel tímaskekkju að hafa slíkt í lögum og þó fyrr hefði verið mætti það falla út að mínu mati.

Ég held að það markmið sem sagt er vera eitt af meginatriðum frv. að auka sjálfstæði skólanna sé líka gott og gilt og um það séu menn flestir sammála. Spurningin er hins vegar sú, felst það í þessu frv.? Er það svo í reynd? Ég held að það sé nauðsynlegt að fara aðeins yfir það því að mörg einstök efnisatriði og breytingar í frv. virðast fela í sér hið gagnstæða og ég mun víkja að því nánar.

Varðandi það að orðið sé mjög brýnt að breyta grunnskólalögunum gæti ég tekið undir með hv. 7. þm. Reykn., Hjálmari Árnasyni, um að það er brýnt að taka á ýmsum undirliggjandi og djúpstæðum vandamálum í menntakerfi okkar og ekki síst á framhaldsskólastiginu. En ég er ekki viss um að það geri það sjálfkrafa jafnbrýnt að afgreiða þetta frv. og ég er heldur ekki viss um að breytingarnar sem í því felast í sjálfu sér séu jafnöruggur vegvísir til þess að ná fram breytingum og til að mynda að hækka gengi verkmenntunar eða starfsmenntunar í þjóðfélaginu. Ég óttast því miður að það sé við að glíma miklu djúpstæðari og undirliggjandi vanda sem við náum ekki að breyta með þessu, því miður og þar á ég fyrst og fremst við hugarfarið. Ég held að það sé því miður þannig að á Íslandi sé rótgróin oftrú á bóknámi og langskólanámi á hinu bóklega sviði sem lýsir sér í dýrkun á menntagráðum á því sviði, stúdentsprófum og háskólaprófum, og jafnvel úr þessum ræðustól monta menn sig af því öðru fremur að vera doktorar frá Bretlandi eða eitthvað annað sem er ekki sjálfkrafa trygging fyrir því að menn séu snillingar og óskeikulir. Það er þessi undirliggjandi oftrú á þessum þætti náms en skortur á skilningi og trú á því að hitt sé jafngilt, að mennta sig til starfsnáms.

Þetta frv., herra forseti, er í grunninn afrakstur á starfi nefndar, svonefndrar 18 manna nefndar eða sem stundum var kölluð 17+1 nefndin af því að sá orðrómur gekk að í henni væru 17 sjálfstæðismenn og einn krati og þannig væri nafnið til komið. Aðrir sögðu að þetta væri af því að 17 menn í nefndinni væru af suðvesturhorninu en einn af landsbyggðinni og má vera að hvort tveggja hafi verið rétt. Þessi nefnd var ólánlega samansett og ég held að þess sjáist enn nokkur merki í frv. þó að þar hafi ýmsu verið vikið til betri vegar og þá á ég ekki síður við þá endurskoðun sem fram hefur farið á því í sumar en annað. En samt er það nú svo að hér er a.m.k. annar stjórnarflokkurinn, hv. framsóknarmenn, að skrifa upp á í grófum dráttum afrakstur þessara 17+1 nefndar, 17 sjálfstæðismanna og eins krata. Er það nokkuð merkilegt framlag af hálfu Framsfl. að bera það efni þannig inn í þingið.

Ég vil gera athugasemdir við nokkra efnisþætti og þá kannski ekki síður þann anda sem manni virðist þar vera á ferðinni og tek þetta ekki endilega í sömu röð og það er sett fram í frv. Í fyrsta lagi vil ég staldra aðeins við þau ákvæði sem lúta að upptöku inntökuskilyrða í framhaldsskólana og fornám fyrir þá sem fullnægja ekki settum inntökuskilyrðum á einstakar brautir og um það fjallað í 15. gr. Ég set spurningarmerki við þessa breytingu. Í 1. mgr. 15. gr. er sagt að allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skuli eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla. En svo er fjallað um það að inn á einstakar námsbrautir skuli koma inntökuskilyrði og það er enn fremur sagt að sú heimild, sem hefur verið í lögum fyrir nemendur 18 ára og eldri til þess að hefja fortakslaust án skilyrða nám í framhaldsskóla, skuli einnig þrengd með því að þar er skotið inn orðunum ,,að undangengnu mati``. Í greininni segir: ,,Heimilt er skólameistara, að undangengnu mati, að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstaka námsbrautir`` o.s.frv. Ég fæ ekki betur séð en þetta gæti orðið þannig í reynd, ef yfirvöld menntamála á einhverjum tíma samþykkja þá framkvæmd af hálfu einstakra framhaldsskóla, að allir inngöngumöguleikar í framhaldsskóla verði bundnir inntökuskilyrðum. Ef hvoru tveggja yrði nú í framkvæmdinni þannig, það yrðu inntökuskilyrði inn á allar námsbrautir viðkomandi framhaldsskóla, mismunandi að vísu eins og hér er samkvæmt orðanna hljóðan mögulegt að hafa það eftir því hvaða námsbrautir eiga í hlut og matið mundi í reynd koma þannig út gagnvart nemendum 18 ára og eldri að þeir yrðu að uppfylla einhver tiltekin skilyrði. Hvað er þá eftir? Það sem er eftir af hinum sjálfstæða rétti í 15. mgr. sömu greinar er bara það að fá að setjast inn í fornámið. Þetta atriði tel ég vera stórpólitískt og skólapólitískt mál sem þurfi að ræða og athuga mjög vel. Viljum við fara inn á þessa braut með þetta fortakslausum hætti ef þetta yrði framkvæmdin eða er þarna eitthvað annað á ferðinni?

Ég trúi því ekki að það sé ætlun manna að innleiða inntökupróf eða inntökuskilyrði almennt í framhaldsskólakerfinu á Íslandi, ég trúi því ekki að við séum á þeirri braut eða því spori.

[12:30]

Svo vil ég líka spyrja um annað atriði: Er það hugsun manna að í reynd verði þarna um, eins og ætla mætti samkvæmt orðanna hljóðan, mismunandi inntökuskilyrði eftir námsbrautum að ræða í sama skólanum og hvað er þá verið að gera? Er þá verið að búa til sérstakar tossanámsbrautir eða hvað? Hvaða einkunn er verið að gefa t.d. þeim námsbrautum sem mundu setja sér lægstu kröfurnar í viðkomandi skóla? Hver vill sitja uppi með þær? Eða hvernig er þetta hugsað í reynd? Yrðu þessi inntökuskilyrði mjög mismunandi milli skóla o.s.frv.? Nú getur ráðuneytið að vísu haft áhrif á þetta samkvæmt reglugerðinni en mér finnst orðalagið bjóða upp á vangaveltur um þessa hluti. Þá er nauðsynlegt að fyrir liggi hvaða stefnu menn eru þarna með á bak við. Hver er hugsun yfirvalda menntamála varðandi framkvæmdina?

Herra forseti. Satt að segja fellur mér fellur þessi inntökuskilyrðaprófaandi ekki mjög vel. Mér finnst hann heldur andstæður þeirri hugsun og lífsskoðun minni að það beri að reyna að stuðla að aukinni menntun og auknum þroska alhliða eftir því sem kostur er í samfélaginu og viðleitnin ætti að vera frekar í þá átt að styðja það og ýta undir það en hitt að fara að innleiða hamlandi skilyrði. Menn geta haldið fallegar ræður um að fólk álpist inn í framhaldsskóla og viti ekki hvað það eigi þar við sig að gera og verði utan garðs og allt þetta. En ætli þess fólks gæti ekki beðið vandamál annars staðar á lífsleiðinni og er einhver sönnun fólgin í því að segja þetta? Gæti vegur þeirra ekki orðið enn verri ef leið þeirra hefði legið annað alveg fram hjá skólakerfinu? Það verður þá a.m.k. held ég að sýna sig að einhver önnur úrræði, sem bjóði þeim bestu mögulegar þroskabrautir í lífinu miðað við hæfileika þeirra, séu í boði.

Í 41. gr. er fjallað um einkaskólana og sjálfsagt breytir það ekki miklu frá því sem verið hefur nema ef vera skyldi að þarna blundi á bak við löngun einhverra til að koma á eiginlegum einkaskólum fyrir betrimannabörn eins og hefði kannski verið sagt á hinni öldinni. Það væri gaman að vita hvort þarna er eitthvað meira á ferðinni en orðalag af þessu tagi.

Herra forseti. Þá vík ég aðeins að 6. gr. um skólanefndirnar. Það kemur inn á atriði sem ég ætla að ræða betur síðar og það er þetta með sjálfstæði skólanna. Ég get ómögulega túlkað þessa breytingu sem spor í þá átt að auka sjálfstæði skólanna. Ég get heldur ekki túlkað þetta sem spor í þá átt að auka atvinnulýðræði í landinu eða tengja betur saman þá aðila sem þarna eiga að vera að störfum í skólunum, nemendur, kennara, skólastjórnendur og yfirvöld þessara mála, eða rekstraraðila skólanna, sveitarfélögin og ríkið. Hver eru rökin önnur en þau sem þarna koma fram fyrir því að henda fulltrúum nemenda og kennara út úr skólanefndunum? Ég tek það ekki fullgilt að þarna geti orðið einhverjir hagsmunaárekstrar í því formi að einn fulltrúi af t.d. sjö, ef skólanefndirnar væru áfram sjö manna, hafi atkvæðisrétt og geti þar með með atkvæði sínu orðið yfir yfirboðara sinn á vinnustað, skólameistarann, settur. Mér nægja ekki þau rök gegn hinum veigamiklu röksemdunum að það sé heppilegt að leiða saman til ábyrgðar á þessu starfi fulltrúa allra helstu aðila. Enn síður finnst mér það vera í samræmi við fallegar yfirlýsingar um að auka sjálfstæði skóla og forðast miðstýringu að láta hæstv. menntmrh. einhendis tilnefna meiri hlutann í skólanefndirnar. En það er sú breyting sem hér er á ferðinni að fækka í skólanefndunum úr sjö í fimm og af þeim fimm skuli menntmrh. einn og sér skipa þrjá, meiri hlutann. Afleiðing lögfestingar þessara ákvæða verður sú að menntmrh. skipar einn meiri hlutann í skólanefndum í alla framhaldsskóla í landinu. Er það virkilega valddreifing frá því sem verið hefur? Að fjölga fulltrúum menntmrh. úr einum í þrjá, henda út fulltrúum nemenda og kennara og ganga þannig frá málinu? Ég tel þetta afar vafasama breytingu. Menn geta að vísu sagt eins og hér er gert að þessir fulltrúar menntmrh. eigi að koma úr viðkomandi sveitarfélögum og það beri að leita til atvinnulífsins um tilnefningar þar. En hver er tryggingin fyrir því að það sé ekki formaður, varaformaður eða ritari sjálfstæðisfélagsins á staðnum sem verða sóttir inn í skólanefndirnar? Enginn. Þarna er verið að bjóða upp á flokkspólitíska miðstýringu eða þá stjórnsýslulega miðstýringu af versta tagi. Ég tel mjög vitlaust og mikla afturför að breyta lögunum í þessa veru að ráðherra skipi meiri hluta allra skólanefnda í landinu.

Ef einhver skyldi telja að þau rök, sem eru sett fram í umfjöllun um 6. gr. á bls. 26, haldi gagnvart fulltrúum kennara þá gera þau það ekki gagnvart fulltrúum nemenda. Það eru ekki rök til að henda fulltrúum nemenda út úr skólanefndunum að það geti komið upp einhver hagsmunatogstreita milli kennara og skólameistara á staðnum varðandi mannaráðningar eða annað. Ég bendi á að það er búið að setja stjórnsýslulög í landinu sem tækju á vanhæfisákvæðum ef slíkt kæmi til. Það væri hægt að hugsa sér að setja enn skýrari og frekari reglur, til að mynda varðandi það að fulltrúar kennara væru í sérstakri stöðu þegar kennararáðningar eru teknar fyrir, ef um slíkt væri að ræða, og menn vilja forðast einhver vandamál sem maður getur vissulega séð fyrir að komi upp og reyndir menn segja manni að gerist. En er það þá svo veigamikið að það beri að fórna öllum hinum markmiðunum sem geta verið fólgin í því að hafa þarna til staðar, í fullum rétti með atkvæði, fulltrúa nemenda og kennara?

Ég vil, sem á einni tíð fulltrúi nemenda í skólanefnd gagnmerkrar framhaldsskólastofnunar norður í landi, Menntaskólans á Akureyri, mótmæla því að fjallað sé um stöðu nemenda með þessum hætti. Ég vil hafa fulltrúa þeirra þarna inni. Þeir þjóna þar þeim tilgangi að bera sjónarmið nemenda, viðhorf og hagsmunamál inn í þetta starf og það er alveg augljóst mál að það þyngir málflutning þeirra að þeir séu þar í fullum rétti. Ég sé engin sérstök rök fyrir því sem ég fell fyrir að það sé ekki hægt að hafa þá skipan áfram að nemendur og kennarar eigi þarna fullgilda aðild og það mundi til að mynda að öðru leyti að óbreyttum ákvæðum fela í sér að menntmrh. væri ekki lengur að tilnefna meiri hluta í skólanefndirnar. Það væri komið á betra jafnvægi milli þessara stóru aðila, þ.e. starfsfólksins eða neytendanna, ef svo má að orði komast í einn stað, sveitarfélaganna og svo í þriðja lagi yfirvalda menntamála.

Ég mótmæli alveg sérstaklega breytingum í 37. gr. þar sem ríkið hættir að kosta uppbyggingu heimavista að fullu. Þetta er mjög ranglát breyting. Ég hef engin rök heyrt flutt hér fyrir henni. Staðreyndin er sú að við þá skóla þar sem eru heimavistir er það nær undantekningarlaust þannig að í þá skóla sækja nemendur í verulegum mæli sem koma utan að og eru ekki úr viðkomandi sveitarfélagi sem stendur að rekstri skólans. Þess vegna er ósanngjarnt að ætla þeim sveitarfélögum að fara að taka að þetta miklu leyti þátt í uppbyggingu stofnunarinnar einnig að þessu leyti. Það er auðvitað alveg augljóst mál og þarf engan speking til að skilja að með þessu er verið að íþyngja enn þeim sveitarfélögum sem búa við þannig landfræðilegar aðstæður að það þarf á heimavist að halda til að halda uppi framhaldsskóla á því svæði. Þau eru þá að taka á sig viðbótarbyrðar að breyttu breytanda, umfram önnur þar sem ekki háttar þannig til. Er það sú jafnaðarstefna sem menn vilja beita sér fyrir? Er Framsfl. sérstaklega hreykinn af því að innleiða þarna aukna mismunun hvað varðar aðstöðu sveitarfélaganna til að standa undir þessari starfsemi? Það er alveg borðleggjandi að það er gert með því að leggja yfir á sveitarfélögin aukinn kostnað vegna uppbyggingar heimavista. Ég vona að hv. menntmn. beri gæfu til að henda þessu út og hafa þarna að öðru leyti óbreytt ákvæði eins og verið hafa og gilt hafa lengi.

Um gildistökuna vil ég svo segja það, herra forseti, að það er nokkuð skondið þegar hér er lagt fram mál og okkur er sagt að það sé mjög brýnt, jafnvel af mönnum sem eiga að þekkja vel til, en svo er það samt sem áður þannig að þegar kemur að mörgum eða jafnvel helstu veigamiklu breytingum frv. eiga þær ekki endilega að vera komnar til framkvæmda og í gildi fyrr en á næstu öld. Lögin eiga ekki að koma að fullu til framkvæmda fyrr en í upphafi skólaársins 2000--2001 þó þau taki gildi fyrr. Það mun verða komin ný öld, herra forseti, ef rétt er athugað. Það er nefnilega svo að við höfum ýmis áttað okkur á því þrátt fyrir allt að það er að koma ný öld. Þannig er t.d. með starfsnámið sem hv. tveir síðustu ræðumenn lögðu mikla áherslu á sem báðir eiga að þekkja vel til og hafa komið við sögu að það á ekki að vera komið að fullu til framkvæmda fyrr en á þessum tímamótum. Sama á reyndar við um ákvæði 24. gr. og það er ég nú ekki að sýta, þ.e. þá grein sem fjallar um lokaprófin og samræmingu þeirra. Ég held að þar sé líka ákvæði sem þurfi að athuga mjög vel áður en farið er af stað með það og ég harma þess vegna ekki að tími gefist til að skoða það í gegnum það að gildistökuákvæðum frv. er þannig háttað að það á ekki að koma að fullu til framkvæmda fyrr en skólaárið 2000--2001.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja að ég, því miður, les út úr þessu frv. lykt af ákveðinni stöðnunarhyggju og miðstýringaráráttu sem er mér ekki mjög að skapi þvert ofan í það sem sums staðar er sagt t.d. í umfjöllun um frv. Ég get ekki séð að það sé til að auka sjálfstæði skóla eða að stuðla að valddreifingu að binda það t.d. í lög hvaða bóknámsbrautir eigi að vera í framhaldsskólum. Ég skil það ekki þannig. Það er þvert á móti verið að þrengja að og binda í lagaramma hluti sem að mínu mati ættu að vera í valdi skólanna. Ég nefni í öðru lagi meirihlutavald menntmrh. Er það valddreifing? Er það til að auka sjálfstæði skólanna? Ég nefni samræmdu lokaprófin, að samræma lokapróf framhaldsskóla. Er það til að auka sjálfstæði skólanna? Er það til að gera valkostina fleiri og fjölbreyttari? Ég nefni þessa inntökuprófahugsun. Er það valddreifingarhugmynd? Er það til að gera sjálfstæði skólanna meira? Er það ekki stöðlunar- og miðstýringarhyggja? Fleira mætti nefna af þessum toga.

Ég tek svo allra síðast undir orð hv. 7. þm. Reykn. um það að ég vona að um afgreiðslu þessa máls geti tekist víðtæk og góð pólitísk samstaða. Það er afar mikilvægt að grundvallarlöggjöf af þessu tagi sé þannig úr garði gerð að það þurfi ekki að vera að hringla með hana á nokkurra ára fresti. Það er hundleiðinlegt að hver einasti menntmrh. skuli þurfa að reyna að monta sig af sinni eigin framhaldsskólalöggjöf. Þetta á að vera grundvallarlöggjöf sem stendur áratugum saman, skapar festu í skólastarfinu og býður upp á góða sátt í þjóðfélaginu um framkvæmd veigamikilla mála af þessu tagi. Þess vegna hvet ég að síðustu alveg eindregið til þess að hv. menntmn. leggi í það vinnu eins og kostur er að reyna að ná þverpólitískri og góðri samstöðu um afgreiðslu málsins.