Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:47:38 (634)

1995-11-02 12:47:38# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:47]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, varð tíðrætt um inntökuskilyrði og talaði um að þetta væri brot á jöfnuði manna. Ég bendi hv. þm. á það að fólk er misjafnlega fætt, sumir eru fæddir fallegir, aðrir ljótir, sumir sterkir, aðrir veikburða. Sumir eru fæddir gáfaðir og aðrir seinþroska. Ég held að skipbrot núverandi skólakerfis felist akkúrat í því að verið er að reyna að gera alla jafngáfaða. Það er nánast fötlun í dag að vera greindur og fluggáfaður í skóla vegna þess að það er verið að pressa alla í þetta sama far. Það er verið að pína krakka til að stunda nám sem þau ráða ekkert við og ég held að það sé mjög þarft að það komi inntökuskilyrði í nám, sérstaklega þyngra nám sem gerir ákveðnar kröfur til annaðhvort gáfna eða jafnvel einhverra annarra hæfileika þannig að þeir krakkar sem byrja námið séu hæfir til þess og ekki sé verið að pína þá til að gera eitthvað sem þeir ráða ekki við. Þetta er mjög mikilvægt.