Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:49:04 (635)

1995-11-02 12:49:04# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Nú væri gaman að hafa nokkurn tíma til umræðna. Hér held ég að við séum loksins farin að tala um eitthvað sem skiptir máli og sérstaklega hefði ég gaman af því að ræða við hv. þm. um þetta hugtak, ,,gáfur``. Mér dettur í hug nokkuð sem frændi minn ágætur sagði um mann að hann væri fluggáfaður en mikill asni og þetta er nefnilega afar varhugavert hugtak og erfitt viðfangs og ekki síður þegar kemur að hlutverki skólakerfis eða menntakerfis í einu landi.

Ég lít svo á að það sé réttur hvers manns að fá að þroskast og þroska hæfileika sína eins og hann á framast möguleika til hvort sem hv. þm. Pétur Blöndal, ég eða aðrir slíkir, skilgreinum hann sem minna eða meira gáfaðan. Það er svo mikið vandaverk og ég hætti mér ekki mjög langt út á þá braut. En það á að vera skylda okkar að byggja upp þannig skólakerfi, menntakerfi og almennt samfélag að það bjóði einstaklingunum upp á sem ríkulegasta möguleika til að þroska hæfileika sína eins og þeir eru. Og auðvitað eru menn fæddir misjafnir, það er alveg rétt. Ég tel að svona inntökuskilyrðahugsunarháttur í framhaldsskólakerfinu í landinu sé andstæður í eðli sínu þeirri hugsun að allir eigi rétt á því að þroska sína möguleika og skólakerfinu í landinu ber skylda öllu öðru fremur til þess að virða þetta markmið en ekki útskrifa einhverja örfáa dúxa.