Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:52:33 (638)

1995-11-02 12:52:33# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:52]

Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði skipun nefndar að mótun menntastefnu að sérstöku umtalsefni og kallaði hana ólánlega samsetta nefnd. Það hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera aukaatriði hvaða pólitísku skoðanir nefndarmenn hafa og hvar þeir eru búsettir. Aðalatriðið er hver árangur starfsins er og sú nefnd sem hv. þm. gerði gys að starfaði í tvö ár og skilaði frá sér tveimur skýrslum um mótun menntastefnu og frv. til laga um grunn- og framhaldsskóla. Það lýsir eingöngu fordómum viðkomandi að gera störf nefndarinnar tortryggileg með þeim hætti sem hann gerði.

Ég fagna hins vegar yfirlýsingu þingmannsins um þverpólitíska samstöðu í þessu mikilvæga máli og mun leggja mig fram um að vinna að henni.

Hvað varðar bóknámsbrautir vil ég geta þess sérstaklega að fækkun þeirra auðveldar skipulagningu náms í skólanum, eykur samræmi milli einstakra skóla og gefur möguleika á markvissu eftirliti með námsárangri nemenda og á einstaka brautum er síðan hægt að bjóða mismunandi kjörsvið og hafa þeir nemendur möguleika á fjölbreytni í vali. Þetta vildi ég benda sérstaklega á og enn þá greinargerð með frv.