Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 12:54:22 (639)

1995-11-02 12:54:22# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[12:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg greinilegt að ég hef komið við afar snöggan blett á talsmönnum stjórnarflokkanna þegar ég leyfði mér að rifja aðeins upp skipan þessarar frægu 18 manna nefndar því að hv. þm. spýtast í ræðustólinn hver á fætur öðrum og telja þetta hina mestu óhæfu að ég skuli vera að vekja á þessu athygli.

Þau orð sem síðasti hv. ræðumaður notaði, eins og að gera gys, fordómar og tortryggilegt voru allt orð hv. þm. en ekki mín. Ég tók aldrei svona til orða í þessu sambandi. Það er rétt að vísu að ég sagði að ég teldi þetta heldur ólánlega samsetningu á nefndinni. Ég tel það t.d. heldur ólánlegt að aðeins einn skólamaður af landsbyggðinni skuli vera í 18 manna hópi til að endurskoða skólastefnu. Vel að merkja er það að vísu afar mætur og góður skólamaður sem ég treysti mjög vel þó að hann sé í Sjálfstfl., sem er fræðslustjórinn á Norðurlandi eystra, þannig að hann er vissulega margra manna maki en kannski ekki á móti 17 og mér finnst þetta ekki skynsamlegt. Ég hefði talið að svona nefnd hefði gjarnan mátt vera skipuð fulltrúum allra þingflokka og síðan blöndu af skólamönnum og fagfólki af höfuðborgarsvæðinu, suðvesturhorni landsins og landsbyggðinni. Það hefði ég talið eðlilegt.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þm. nefndi um að binda þarna bóknámsbrautirnar fannst mér það einmitt sannast í rökstuðningi hv. þm. ákveðin skipulags- og miðstýringarhyggja sem mér finnst lykta of mikið af í þessu frv.