Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 13:31:26 (641)

1995-11-02 13:31:26# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[13:31]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem meðlimur í menntmn. hlakka ég til að vinna með það framhaldsskólafrv. sem nú er lagt fram nokkuð breytt í þriðja sinn. Frv. hefur tekið nokkrum breytingum eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni í dag, en ljóst má vera bæði af ræðunum sem hér hafa verið fluttar og einnig af þeim umsögnum sem liggja fyrir um frv. frá því á síðasta þingi, að enn eru mörg álitamál uppi og er það kannski ekki skrýtið þar sem skólamál og skólastefna snertir marga aðila og oft með mjög ólíkum hætti. Einnig skal á það minnt að allt tímabilið frá 1976--1988 má segja að vantað hafi lög um framhaldsskólann. Það náðist ekki samstaða um annað en rammalög sem heimiluðu að setja á stofn framhaldsskóla, en einmitt á því tímabili má segja að það hafi orðið sprenging í framhaldsskólanum og því má segja að framhaldsskólastigið hafi verið stjórnlaust lengi vel og þótt lögin sem sett voru loksins árið 1988 séu að mörgu leyti góð, þá er sú námskrá sem kom í framhaldi af þeim í raun og veru ekkert annað en staðfesting á því sem orðið var. Því má segja að framhaldsskólinn hafi blásið út og þróast í allar áttir og við sitjum uppi með þann framhaldsskóla núna og þess vegna er brýnt að taka á þessu stigi og að því leyti til fagna ég því að þetta frv. er fram komið, en ég er ekki alveg sannfærð um að það leysi þau vandamál sem að mínu mati eru nú á framhaldsskólastiginu.

Framhaldsskólastigið hefur að mínu mati að mjög miklu leyti einkennst af karpi um form. Lengi vel snerist umræðan um það hvort betra væri bekkjarkerfi eða áfangakerfi og að mörgu leyti er þetta frv. fyrst og fremst um form. Það er verulega lítið tekist á um innihald. Reyndar er talað um að það eigi að vera aðalnámskrá og vonandi verður hún eitthvað þróaðri en sú sem nú liggur fyrir. En að langmestu leyti er hér verið að karpa um form.

Hvað er það þá í aðalatriðum sem hér er verið að takast á um? Mér finnst það vera tvennt: Annars vegar á að gera allt kerfið miðstýrðara. Einkum og sér í lagi á að auka valdsvið menntmrh. Það má vel vera að aukin miðstýring sé nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú ríkja ef á að koma einhverjum breytingum á. En hins vegar eru á ferðinni hugmyndafræðileg átök um einstaklingshyggju og einhvers konar jafnréttishyggju en hugmyndafræði einstaklingshyggju er mjög greinileg í þessu frv. Það er verið að stefna að einstrengingslegri skilgreiningum á árangri, hvað sé rétt og gott og að vald skuli vera miðstýrt.

Þótt nauðsynlegt geti verið við núverandi aðstæður að auka miðstýringu að einhverju leyti, þá vil ég vara við að það gangi svo langt að eðlileg þátttaka og frumkvæði kennara og skólastjórnenda fái ekki að njóta sín. Því allt gott skólastarf byggir á jákvæðu andrúmslofti og áhuga kennara og nemenda. Of mikil stöðlun á stúdentsprófi getur einnig leitt til vafasamrar stöðnunar og hreinlega til stagls. Ég tek sem dæmi að ef allir þurfa að læra einhverja ákveðna, tiltekna Íslendingasögu fyrir stúdentspróf þá mun menningararfurinn verða þannig að allir þekkja t.d. Njálsögu í andstöðu við það sem nú er að þetta er meira á valdi kennara. Þar af leiðandi þekkir ungt fólk ekki bara Njálssögu heldur einnig fleiri Íslendingasögur. Það eru sem sagt mjög ákveðnir kostir við það að stúdentsprófið er margbreytilegt, eins og það er núna, þótt öllum sé ljóst að gæðin á því námi sem þar er að baki eru misjöfn. En um leið aukast möguleikarnir á að námið sé við hæfi hvers og eins og í takt við áhuga bæði kennara og nemenda og þar með betra.

Hins vegar finnst mér meginpunkturinn sem tekist er á um í þessu frv. vera að skýrari rammi er markaður fyrir frekari uppbyggingu starfsnáms sem er að mínu mati mjög mikilvægt atriði. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það í þjóðfélaginu að það er mikilvægt að efla starfsmenntun. Þar má nefna að við erum hreinlega að verða að viðundri meðal menntaþjóða vegna þess hve fáir útskrifast hér með starfsmenntun miðað við bóknám. Og þá er ég auðvitað að miða við menntunarstig þjóðarinnar almennt.

Ástæður þess að við höfum svo til eingöngu bóknám á framhaldsskólastiginu eru að mínu mati þær að það nám er ódýrara, bókvitið á sér djúpar menningarlegar rætur hér og að þetta skólastig hefur lengi fengið að þróast án markvissrar stjórnunar. Og því hefur verið langódýrast að svara kröfum um eftirspurn með auknu bóknámi.

Hér útskrifast æ fleiri með stúdentspróf sem er í sjálfu sér gott. En það próf gefur engin starfsréttindi og launalega lítið sem ekkert í aðra hönd samkvæmt tiltækum rannsóknum. Það er því í reynd að skapast það ástand að æ fleiri reyna við stúdentsprófið sem þó lýkur ekki fyrr en við 20 ára aldur á meðan slíkt gerist á aldrinum 18--19 ára í flestum nágrannalanda okkar.

En hvað svo? Hvað gerist þegar fólk hefur lokið stúdentsprófi? Þrýstingur á stúdentsprófið er orðinn svo mikill að jafnvel þeim sem ætla sér í iðnnám, strax 15--16 ára, er ráðlagt að fara fyrst í stúdentspróf. Við þekkjum t.d. öll dæmi bæði varðandi Fósturskólann og Þroskaþjálfaskólann að þangað sækja í vaxandi mæli stúdentar. Þetta er líka raunin í sterkum iðngreinum, t.d. í trésmíði og fatahönnun, hvort sem er í Iðnskólanum eða í myndlistarskólum. Eftir að fólk er búið með fjögurra ára stúdentspróf fer það í fjögurra ára iðnnám sem líka er á framhaldsskólastigi. Það útskrifast því 24--25 ára gamalt ef allt gengur eðlilega. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort það sé kannski formlega rétt að gera þetta bara að háskólanámi, eins og til stendur bæði með Fósturskólann og Þroskaþjálfaskólann. Má þá ekki allt eins viðurkenna það að þeir stúdentar sem fara í iðnnám séu í háskólanámi? M.a. af þessari ástæðu er ég þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að fá fram frv. um háskólastigið í heild sem menntmrh. hefur boðað og að þessi tvö skólastig séu skoðuð í heild sinni. Þá gæfist tækifæri til að skoða raunhæft hvaða starfsnám á best heima á framhaldsskólastigi og hvað á háskólastigi. E.t.v. er orðin þörf fyrir starfsnám, fleiri tegundir af starfsnámi á háskólastigi, nám sem er starftengt en ekki akademískt eins og nám í háskólum. Í hefðbundnu háskólanámi er lögð áhersla á sjálfstæða þekkingarsköpun og rannsóknarfærni en ég er hér að tala um nám að loknu stúdentsprófi þar sem áhersla er lögð á störf og starfsnám.

Með þessu er ég alls ekki að segja að allt starfsnám eigi að fara af framhaldsskólastigi eins og til stendur að gera t.d. með Fósturskólann og Þroskaþjálfaskólann ef uppeldisháskóli verður að veruleika. Því öllum er ljóst að um það bil 50% hvers árgangs lýkur ekki skilgreindum prófum í framhaldsskólum með núverandi skipulagi og þessi hópur á æ erfiðara með að komast til dæmis í Iðnskólann m.a. vegna þess að stúdentar sækja þar um og ganga oft fyrir. Við þurfum því að efla starfsmenntunina á svo ótal mörgum sviðum og ef ég miða t.d. við lönd eins og Danmörku og Þýskaland, er alveg með ólíkindum hvað hér er lítið framboð. Í þessum löndum eru kannski allt að 40% hvers árgangs sem útskrifast með starfsnám.

Vandinn er að á þessum hröðu breytingatímum sem við lifum eru margir þeirrar skoðunar að besti undirbúningur fyrir lífið sé góð, almenn menntun, þ.e. að það fólk sem hefur góða almenna menntun hafi meiri möguleika til að skipta um starf síðar í lífinu. Frá því sjónarmiði er sú þróun sem hér hefur átt sér stað, þ.e. sívaxandi fjöldi sem fer í almennt framhaldsskólanám og stefnir að stúdentsprófi, jákvæð. Það er því ekkert skrýtið út frá þessu sjónarmiði að foreldrar hvetji börn sín, jafnvel þau sem ætla sér í trésmíði eða fatahönnun, til þess að ljúka fyrst stúdentsprófi.

Alla þessa öld hafa ýmsir tilburðir verið reyndir til að ná því tvöfalda markmiði að bjóða upp á nám sem hæfir öllum og að efla starfsnám sem er í takt við þjóðfélagið og atvinnulífið. Bæði markmiðin eru mikilvæg, það fyrra af uppeldislegum- og mannréttindaástæðum og það síðara til að efla atvinnulífið og lífskjörin í landinu. Að mínu mati er þessu tvennu of oft ruglað saman þannig að hugmyndinni um að bóknám sé æðra og erfiðara en starfsnám er viðhaldið til skaða bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Dæmi um breytingar af þessu tagi voru t.d. svokallaðar verknámsdeildir gagnfræðaskólanna um miðja öldina og grunnhugmyndin um fjölbrautaskólana sem byggir á þeirri góðu jafnréttishugsjón að allir framhaldsskólanemar geti verið undir sama þaki, helst jafnvel saman í ákveðnum greinum, en útskrifist síðan af mismunandi brautum, sumir af bóknámsbrautum og aðrir af starfsnámsbrautum. Þessi hugmynd átti að reyna að slá á þá fáránlegu hugmynd sem hér hefur verið rædd í morgun að bóknámið sé æðra en starfsnámið.

[13:45]

Útfærslan á fjölbrautaskólahugmyndinni eða hugmyndafræðinni hefur ekki gengið eins vel og til stóð. Blöndun nema af mismunandi starfsbrautum, t.d. í kjarnagreinum, hefur víða reynst erfið, m.a. af skipulagsástæðum eða þá að menn gleymdu hver hugsjónin var. Í þessu frv. má sjá ýmsar þróunarlíkur í þá átt að þetta verði enn erfiðara þar sem námið á í vaxandi mæli að taka mið af lokamarkmiði námsbrautar. Ég get ekki skilið það öðruvísi en þannig að íslenska, enska eða stærðfræði fyrir trésmiði eigi að vera önnur en fyrir þá sem taka stúdentspróf. Það er alls ekki auðvelt að leysa það hvernig má samhæfa að allir nemar fái nám við hæfi og hins vegar að starfsnám og verknám sé mikilvægt fyrir einstaklinga og þjóðfélag, bæði þá sem eru góðir námsmenn og hina. Leiðirnar hljóta þó að taka bæði til framhaldsskóla- og háskólastigsins og ég vek athygli á því að núna er grunnskólinn ekki lengur inni í þessari umræðu, samanber verknámsdeildir gagnfræðaskólanna. Við höfum fært allt skólakerfið upp um eitt skólastig. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh. hvenær búast má við því að hann leggi fram frv. það um háskólastigið sem hann boðaði í lista þeim sem var afhentur okkur þingmönnum um leið og stefnuræða forsrh. var flutt í upphafi þings. Ef það frv. opnar möguleika á fjölbreyttu námi á háskólastigi sem ekki er háakademískt, þ.e. stutt starfstengt nám, er ég alls ekki sannfærð um að rétt sé að halda áfram með fjögurra ára nám til stúdentsprófs sem gefur í rauninni engin réttindi og er þá í svipaðri stöðu og gagnfræðaprófið var áður. Því ítreka ég það enn einu sinni að það verður að skoða þróunarmöguleikana á þessum tveimur skólastigum saman.

Ég tel því brýnast að fara af stað með vinnu varðandi innihald framhaldsskólans samanber það að til stendur að setja aðalnámskrá og ég get ekki séð hvers vegna það starf þarf að bíða þangað til þetta frv. hefur verið samþykkt.

Ég vil minna á að það tók mjög langan tíma að ná fram síðasta frv. um framhaldsskóla og ég tel að lögin frá 1988 geti vel dugað þangað til skýrari stefnumörkun varðandi innihald og heildarskipan starfsnáms kemur fram.

Nú má vel vera að nefndin um mótun menntastefnu hafi þegar farið í saumana á öllum þessum atriðum sem ég hef hér nefnt en það kemur þá ekki nógu skýrt fram, hvorki í nefndarálitinu né í þessu frv. Ég hef valið að gera að umræðuefni meginlínur í mótun menntastefnunnar en ekki staldra við einstakar greinar sem ég fæ tækifæri til að fara ofan í í meðferð menntmn. á frv. Það er einu sinni þannig að ef maður er ekki sannfærður um meginhugmyndir frv. virkar allt annað eins og smáatriði.

Eins og ég sagði í upphafi má marka af umsögnum sem bárust menntmn. í fyrra að töluverður ágreiningur sé um mjög margar greinar þessa frv. og því er auðvitað nauðsynlegt að ræða við umsagnaraðila því að sátt verður að nást um mikilvæga löggjöf af þessu tagi. Ég ítreka tvennt að lokum, að þetta er enn og einu sinni umræða um form án innihalds að verulegu leyti og ég sé ekki að leiðirnar sem fara á varðandi starfsnámið tryggi að það fái styrkari stoðir en það hefur nú. Ég er sammála hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hér ríkir það hugarfar að bóknámið sé æðra starfsnámi og hér er engan veginn sýnt fram á hvernig á að breyta því hugarfari né að samþykkt þessa frv. tryggi að það fé komi inn í skólamálin sem er nauðsynlegt til þess að starfsnámið verði meira en lagabókstafurinn tómur. Það er ekki nóg að setja góða löggjöf um skólamál ef ekki fæst fé til þess að framfylgja henni og besta dæmið um það eru grunnskólalögin frá 1974 sem voru mjög framsýn og góð lög en komust aldrei í framkvæmd. Nú þarf framkvæmdir í framhaldsskólanum og skýrari stefnumörkun fyrir framhaldsskóla- og háskólastigin í heild.

Að lokum vil ég fagna hugmyndinni um þróunarsjóð framhaldsskólans. Hún er reyndar til í núgildandi lögum en vonandi verður hún útfærð eitthvað á svipaðan hátt og þróunarsjóður grunnskólans þannig að það verði virkileg nýbreytni og rannsóknarstarf sem hlýst af. Í öðru lagi vil ég fagna hugmyndinni um kjarnaskóla þar sem ákveðnir skólar verða leiðandi á ákveðnum sviðum. Ég slæ því fram hvort ekki megi bæta við þá hugmynd að það verði einhvers konar kjarnaskólar um einstakar námsgreinar í bóknámsgreinunum líka þannig að skólum geti boðist að vera sporgönguskólar, t.d. í stærðfræði, þessi skóli þessi árin og síðar í þýsku, ensku eða dönsku þannig að tilraunir og nýbreytnistarf fari fram og kennarar fái þá aukið fé í þessum skóla og verði sporgöngumenn varðandi nýbreytni og rannsóknir.