Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 13:52:39 (642)

1995-11-02 13:52:39# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[13:52]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki séð með hvaða rökum hægt er að halda því fram að þetta frv. fjalli fyrst og fremst um form. Ég tel að frv. fjalli fyrst og síðast um þá stefnumörkun sem snertir innihald, þ.e. að efla starfsmenntun. Formið er ekki meginatriðið þarna. Þar er gengið út frá gildandi formi, við getum tekið sem dæmi bekkjarskóli, áfangaskóli, það er gert ráð fyrir því að þeir starfi eftir sem áður. Hvað varðar námskrárvinnu er það fyrst og fremst tæknileg útfærsla. Það er býrókratísk vinna um ákveðið innihald og ég lít svo á og vil túlka þetta frv. þannig að hér sé verið að leggja áherslu á innihaldið, þ.e. starfsmenntun.

Hv. síðasti ræðumaður, Guðný Guðbjörnsdóttir, nefndi jafnframt að í frv. togaðist á spurningin um einstaklingshyggju eða jafnréttishyggju. Það er ekki skrýtið að það takist á í þessu frv. enda er það meginatriðið í öllum kennslufræðum að einstaklingur fái nám við hæfi og þá má segja að það sé í kennslufræðum ekki rétt að stilla þessu upp sem andstæðum. Jafnréttið er fólgið í því að hver einstaklingur fái nám við hæfi. Með því að auka starfsnám allverulega eins og er markmið þessa frv. er einmitt verið að koma til móts við þann fjölda nemenda á framhaldsskólstigi sem fær í dag ekki nám við hæfi, gefst þar upp og hrökklast frá skóla. Það atriði er sennilega hvort tveggja í senn að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og skapa aukið jafnræði nemenda framhaldsskóla til náms og draga þar með um leið úr vandamálum sem upp hafa komið.

Ég tek undir áhyggjur síðasta ræðumanns um of stöðluð stúdentsprófs en mér fannst á tali hv. ræðumanns að hún gerði ráð fyrir því að hin samræmdu stúdentspróf yrðu með sama móti og hefðbundin samræmd próf í grunnskóla í dag. Ég lít svo á eins og ég hef áður nefnt í dag að fyrst og fremst sé átt við könnunarpróf en ekki próf sem er staðlað niður í einstakar kennslubækur. Aðalatriðið er að skólar eru í viðbragðsstöðu, sumir hverjir, til þess að fara af stað með öflugt starfsnám. Við erum sammála um að núverandi fyrirkomulag gangi ekki og virki ekki og þess vegna er mikilvægt og ég fagna því að hér virðist vera í megindráttum þverpólitísk samstaða um þetta mikla mál.