Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 13:57:04 (644)

1995-11-02 13:57:04# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[13:57]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel óeðlilegt að löggjafinn telji upp allar þær námsbrautir sem um er að ræða og það hafa hv. þm. nefnt í morgun. Það sem ég á við og hef nefnt í tvígang í dag er að ýmsir skólar eru tilbúnir til þess að fara af stað með fjölbreytilegt starfsnám, þá er verið að ræða um langar og stuttar starfsmenntabrautir sem hafa verið þróaðar með atvinnulífinu. Við erum að tala um 60--70 starfsmenntabrautir sem ná inn á iðnað, alls konar millimenntun, þjónustu og þannig má áfram telja.

Það er heldur ekki hlutverk löggjafans að ákveða nákvæmlega hvar eigi að krefjast stúdentsprófs. Þar hlýtur atvinnulífið að koma að, hverjar eru kröfur atvinnulífsins um einstakar starfsmenntabrautir. Það lít ég á að muni gerast í gegnum starfsgreinaráð, í gegnum fræðslumiðstöðvar og þau fagráð sem frv. gerir ráð fyrir að komið verði upp við skólana.