Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 13:59:03 (646)

1995-11-02 13:59:03# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[13:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér liggur fyrir á borðum okkar frv. til laga um framhaldsskóla sem að mínu mati er bæði mjög gott mál og þarft. Það er auðvitað mjög mikil nauðsyn á því að við tökum upp nýja lagasetningu um framhaldsskólana.

Í þessu frv. er margt spennandi. Ég nefni sem dæmi kjarnaskólann, ég nefni samspil atvinnulífsins og skóla. Það er verið að brydda upp á nýjum leiðum til þess að tengja saman skóla og atvinnulíf. Ég get sérstaklega um það sem snýr að starfsmenntuninni og ég vil benda á að í 2. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám.`` Atvinnulífið er nefnt fyrst og svo frekara nám, þannig að áherslan liggur núna á störfin í atvinnulífinu eins og reyndin er. Svo er auk þess í frv. heill kafli um starfsnám.

[14:00]

Ég tek undir sjónarmið hv. 7. þm. Reykn., Hjálmars Árnasonar, um starfsmenntun og gildi hennar. Ísland hefur á undanförnum árum og eiginlega alla tíð verið í stöðu eins og við sjáum víða í vanþróuðum löndum. Háskólamenntun er mjög mikils metin, þangað fara allir og afleiðingin er, meira og minna atvinnuleysi eða lág laun háskólamanna, jafnvel dulið atvinnuleysi eða bert atvinnuleysi. Svo stöndum við uppi með það að það vantar fólk sem hefur starfsmenntun. Það vantar í stórum stíl og þetta er sama vandamálið og í þróunarlöndunum. Í þessu frv. er verið að reyna að snúa af þessari braut. Það er verið að gera starfsmenntuninni hærra undir höfði en hingað til og eins og ég gat um á framhaldsskólinn fyrst og fremst að búa nemendur undir starf í atvinnulífinu.

Við Íslendingar búum við mjög lág laun, skammarlega lág laun og það er mjög lítil framleiðni í íslensku atvinnulífi. Ég held að það sé, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason benti á, einmitt afleiðingin af lélegri starfsmenntun.

Sama kom fram hjá hv. 16. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur, þar sem hún talaði um nám í afgreiðslustörfum. Þetta er gjörsamlega óþekkt á Íslandi. Við höfum reyndar veika skóla eins og bankamannaskólann sem býr menn undir bankastörf og svo er ferðamálaskóli og sitthvað á vegum einkaaðila. Á vegum hins opinbera er ekkert starfsnám á þessum brautum og það er mjög mikilvægt að koma þessu á. Ég vil benda hv. þm. á samband menntakerfis og lífskjara. Þegar við setjum peninga í menntun og menntakerfi erum við í rauninni að fjárfesta fyrir framtíðina. Það skiptir verulegu máli fyrir atvinnulífið hve menntaðir og hæfir einstaklingarnir eru sem það ræður til vinnu og getur skipt sköpum um það hvort við búum hér við góð lífskjör eða ekki eftir 10, 15, 20 ár. Ein mesta langtímafjárfesting þjóðarinnar er í menntamálum. Og það skiptir miklu máli, verulegu máli, hvernig sú fjárfesting er. Hún þarf að vera skynsamleg.

En það er fleira sem kemur fram. Ef við lítum á kennsluhættina eru þeir nánast óbreyttir frá því um aldamót. Kennari stendur uppi við töflu, einangraður í sinni stofu með einhverjum 20--30 nemendum og hann skrifar með krít á töfluna nákvæmlega eins og fyrir 20 árum og í grundvallaratriðum er þetta sama kennsluaðferðin og var notuð á dögum Grikkja. Þarna hefur ekki orðið sú framleiðniaukning sem við sjáum í iðnaði, verslun, samgöngum og á nánast öllum öðrum sviðum.

Herra forseti. Í þessu sambandi hef ég tvær spurningar til hæstv. menntmrh. --- ég vona að hann sé viðstaddur --- til þess að fá eiginlega skýrari mynd af því sem hv. þm. hafa verið að ræða um. Það er í fyrsta lagi:

Er gert ráð fyrir starfsnámi í þjónustu, afgreiðslustörfum, bankastörfum o.s.frv. í þessu frv.? Ég vil fá svör ráðherra við því.

Í öðru lagi: Er kleift að byggja upp nám sem er blanda af hefðbundnu námi með kennara eða leiðbeinanda og einhverjum hópi nemenda í bekk og fjarnámi með aðstoð tölvuneta og þá er ég að tala um menntanetið, Internetið o.s.frv.? Enn fremur er gert ráð fyrir kennslu með nýjum kennsluforritum sem væntanlega koma innan ekki marga ára, ég giska á að eftir fimm ár munum við sjá kennsluforrit sem eru svo spennandi að krakkarnir læra stærðfræði af ekki síðri áhuga en að spila Larry. Ég bendi hv. þm. á að það er einhver skemmtilegur leikur. Ég sé alla vega fyrir mér að menn geta fylgt eftir t.d. í algebru eða í rúmfræði og teiknað ferla með jafnmiklum spenningi eins og þeir fylgja Larry.

Herra forseti. Ég hef nokkrar athugasemdir við 23. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Sérhver framhaldsskóli skal innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans.`` Þarna finnst mér vanta aðalatriðið í upptalninguna sem er að meta árangur kennslunnar og árangur kennara. Þarna vantar það sem við köllum í dag gæðastjórnun. Það er að koma með aðferðir til þess að meta hvern einstakan kennara, til að meta kennslustarfið í heild sinni, til að meta skólann, til að meta skóla hverja gagnvart öðrum. Þetta er mjög nauðsynlegt fyrir foreldra. Það er verulega mikið atriði fyrir foreldra í hvaða skóla þeir senda börnin sín. Þetta getur skipt sköpum fyrir líf barna þeirra. Það skiptir þá að sjálfsögðu miklu máli hvernig sá skóli er sem þeir senda börnin í. Í dag vita foreldrar ekkert um það. Foreldrar vita ekkert um það hvort einn skóli sé betri í einhverjum skilningi en einhver annar skóli. Það er ekki til neitt mat á milli skóla. Þetta þarf að gera. Þetta á líka að vera hvatning fyrir skólana til að standa sig. Það vantar einhvers konar mat á milli skóla. Ég vildi gjarnan að hv. menntmn. líti sérstaklega á þessi atriði þegar hún fær frumvarp þetta til meðhöndlunar, þ.e. hvernig er hægt að koma við gæðastjórnun svo hægt sé að meta kennsluna, kennarann og skólana.

Það má gera með ýmsum hætti. Það má gera með samræmdum prófum. Menn horfa náttúrlega á þessi ósköp sem eru kölluð samræmd próf í dag. En það er bara eitt formið á samræmdum prófum og alls ekki það besta. Það má t.d. hafa próffyrirmyndir. Menntmrn. gæti sent próffyrirmyndir út í skólana og sagt, í þessum anda skuluð þið semja prófin. Það getur sent út próffyrirgjöf, svona eigið þið að gefa fyrir, í þessum anda og náð þannig fram samræmingu á milli skólanna. Það þarf ekki að vera þannig að allir nemendur séu að taka sama prófið á sama klukkutímanum um allt land. Það er allt of viðamikið. Það má líka hafa það þannig að kennarar leiðrétti reglubundið hver hjá öðrum. Þeir kenni jafnvel hver fyrir annan einstaka sinnum. Það er mjög lærdómsríkt. Ég hef prófað það sjálfur.

Það sem á að vera mælikvarði á árangur kennslunnar er ekki endilega einkunnirnar sem nemendurnir fá, heldur aukningin á einkunnunum, þ.e. hvernig tekst ákveðnum kennara að bæta bekkinn sinn? Hvernig tekst honum að auka þekkinguna eða árangur kennslunnar? Það er mikilsvert.

Það kom fram hjá 14. þm. Reykv. Kristínu Ástgeirsdóttur, að atvinnulífið metur menntun lítils. Er það furða? Menntunin gengur öll út á háskólanám. Það gengur öll menntunin út á að kenna krökkunum algebru og latínu og dönsku o.s.frv. en alls ekkert það sem atvinnulífið þarf sem er verkmenntun. Það er ekki skrýtið þó að atvinnulífið meti menntun lítils þegar hún gengur öll út á að læra eitthvað sem hún hefur enga þörf fyrir. Ég geri ráð fyrir því að þetta frv., ef það nær fram markmiðum sínum, muni breyta þessu þannig að atvinnulífið muni meta menntun mjög mikils og þetta muni breytast á komandi árum.