Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:08:36 (647)

1995-11-02 14:08:36# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:08]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera athugasemd við þau ummæli hv. síðasta ræðumanns þess efnis að ekki væri til mat á milli skóla hér og þá er hann væntanlega að tala um skóla á framhaldsskólastigi. Það er auðvitað rétt að ekki fer fram neitt formlegt mat eða formlegur samanburður milli skóla en hins vegar er til slíkur óformlegur samanburður. Ég get upplýst hv. þm. um að nemendur t.d. hér á Reykjavíkursvæðinu hafa mjög skýrar hugmyndir um það hvaða skólar eru góðir og hvert þeir vilja fara. Það segir okkur hins vegar ekki allt um það sem raunverulega gerist innan veggja skólanna en hins vegar hefur Háskóli Íslands hvað eftir annað gert könnun á því hvernig þeim nemendum vegnar sem að koma þar inn fyrir dyr og hvaðan þeir koma. Sú könnun gefur auðvitað ákveðna vísbendingu um það að ákveðnar greinar eða ákveðinn undirbúningur sé góður eða slakur í viðkomandi skóla.

Loks varðandi það sem var vitnað til viðhorfa atvinnulífsins vil ég taka skýrt fram að þessi könnun Gerðar Óskarsdóttur sýndi það að atvinnurekendur töldu sig ekki hafa þörf á menntuðu fólki. Þeir litu þannig á að það væri ekki þörf, þeir vildu ekki ráða menntað fólk. Það var kannski fyrst og fremst það sem kom mjög spánskt fyrir sjónir. En ég held að það væri mikil þörf á því kynna þessa könnun fyrir alþingismönnum.