Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:11:11 (649)

1995-11-02 14:11:11# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:11]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er einn mikill misskilningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Auðvitað er erfitt að kveða upp úr með það hversu rétt mat nemenda á skólum er en þefvísi þeirra í þessum efnum er alveg ótrúleg. Þau eru miklu ábyrgari en við gerum okkur grein fyrir og þau velta framtíðinni fyrir sér og þau reyna að átta sig á því hvaða skóli er við þeirra hæfi og slíkar hugmyndir eru ekki endilega í samræmi við hugmyndir foreldranna. Ég held að þar verði einmitt stundum árekstrar. En auðvitað er það ekki slíkt mat sem við þurfum á að halda. Ég vil taka undir með þingmanninum að auðvitað á að fara fram vísindalegt og faglegt mat bæði á innra starfi skóla og þeim árangri sem þeir skila. Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel þörf á slíku mati en hins vegar er þetta óformlega, ósýnilega mat til á skólunum sem hvergi er til í lögum eða reglum eða í skýrslum menntmrn.