Framhaldsskólar

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 14:14:13 (652)

1995-11-02 14:14:13# 120. lþ. 25.2 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[14:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Frumvarp til laga um framhaldsskóla tel ég til bóta um framhaldsskólastigið í landinu, sérstaklega hvað varðar starfsmenntun og starfsþjálfun. Umræðan í dag hefur verið frjó og skemmtileg og í framhaldi af henni langar mig til að benda á tvö atriði sem ég hygg að ekki hafi verið bent á til þessa í umræðunni.

Það fyrra varðar II. kafla, 2. gr. frv. um hlutverk framhaldsskólans. Þar finnst mér að vanti ákvæði um líkams- og heilsurækt. Mig langar til þess að vitna í þennan texta, með leyfi forseta.

,,Framhaldsskólinn skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum`` o.s.frv. Þarna fyndist mér að mætti fella inn í þar með talið líkams- og heilsurækt, og í framhaldi af þessu innskoti kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar og gagnrýnnar hugsunar. Ég bendi á þetta vegna þess að heilsurækt leiðir til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu þegar til lengri tíma er litið.

[14:15]

Heilsuræktin hefur í för með sér forvarnir á fjölmörgum sviðum. Heilsuræktin heldur ungu fólki frá áfengis- og fíkniefnaneyslu og er þroskandi tómstundagaman fyrir alla aldursflokka. Heilsuræktin hefur áhrif á heilsufar, heilbrigði og eykur þrek, t.d. til náms og starfa, og það kemur fram í mjög merkilegri skýrslu sem prófessor Þórólfur Þórlindsson, hefur tekið saman á vegum Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála.

Seinna atriðið sem mig langar til að benda á varðar XII. kafla þessa frv. Mig langar að spyrja hæstv. menntmrh.: Á kostnaðarþátttaka ríkisins í stofnun og byggingu framhaldsskóla einnig við um byggingu íþróttahúsa við framhaldsskóla? Eins og þingmenn vita þá vantar íþróttahús við nokkra framhaldsskóla landsins, t.d. hér í Reykjavík eins og við Fjölbrautaskólann í Ármúla, Menntaskólann við Hamrahlíð og fleiri framhaldsskóla.

Herra forseti. Evrópuráðið hefur bent á að það sé ekki sparnaður í því að minnka heilsurækt eða íþróttaiðkun í skólum. Það hefur komið fram að það er mjög mikilvægt, og það kemur reyndar fram í þessu frv., að efla verkmenntun í landinu og ég tel að þetta frv. taki nokkuð vel á þeim málum.