Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:01:36 (657)

1995-11-02 15:01:36# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:01]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að hafa haft frumkvæði að því að taka þetta mál fyrir á þingi. Það er mjög ánægjulegt þegar konur úr öllum flokkum geta staðið saman að máli sem þessu. Ég minnist þess þegar sambærilegt mál var tekið fyrir í þinginu á síðasta kjörtímabili, þá var ég inni á þingi sem varamaður. Ég er hissa á því að eftir að sú þáltill. var samþykkt í þinginu, skuli hún ekki hafa fengið frekari framgang.

Mig langar aðeins til að koma inn á þátt fjölmiðla í eflingu íþróttastarfs því að sú mynd sem fjölmiðlar bregða upp af íþróttafólki, sú ímynd sem þeir skapa, er ákaflega mikilvæg hvað varðar þátttöku stúlkna og kvenna í íþróttum og einnig þátt ungmenna. Ég minni á það hvað t.d. einvígi þeirra Fischers og Spasskys hafði mikil áhrif á skákáhuga hér á landi og þá aðallega drengja. Það skákmót er talið vera aðalástæðan fyrir því hvað við eigum sterka skákmenn í dag. Þarna er ákveðið framtak stjórnvalda sem hefur mjög afgerandi áhrif á skákiðkun drengja.

Sama má líka nefna varðandi sýningar frá bandaríska körfuboltanum NBA hjá Stöð 2. Forsvarsmenn íþróttafélaga og kennarar íþrótta í skólum hafa talað um það hvað sýning þessara leikja hafi haft geysilega mikil áhrif á áhuga drengja á körfuboltaíþróttinni. Það sýnir sig í aukinni körfuboltaiðkun um allt land. Þannig geta fjölmiðlar haft áhrif á íþróttaiðkun. Stefnumörkun í fjölmiðlun, og þar má nefna sérstaklega Ríkisútvarpið sem hið opinbera á aðgang að, getur haft mjög afgerandi áhrif á það hversu konur og stúlkur gera sig gildandi í íþróttum og taka þátt í líkamsrækt. Ef það yrði ákvörðun t.d. Ríkisútvarpsins eða fjölmiðla að gera kvennaíþróttunum jafnhátt undir höfði og karlaíþróttum, þá efast ég ekki um að það mundi auka þeirra hlut. Þetta mál kom mjög oft til umræðu í útvarpsráði þegar ég átti þar sæti. Okkur konunum þar fannst hlutur kvenna ákaflega rýr í íþróttaumfjöllun. Menn hafa tekið eftir því, og svo er reyndar enn, að íþróttafréttir af karlaíþróttum koma yfirleitt alltaf fyrst í íþróttaþáttum og jafnvel er farið niður í 2. og 3. deild, sagt frá leikjum og úrslitum í þeim og síðan kannski í fjórða lagi að kvennalandslið hafi sigrað í landsleik við eitthvert erlent lið. Þetta er forgangsröðin í fjölmiðlunum. Þess vegna er það kannski ekki sérkennilegt að konum finnist þetta ekkert mjög merkilegt og áhugavert að vera að standa í þessu. Því að sú ímynd sem íþróttaþættirnir gefa er ákaflega rýr.

Aftur á móti má nefna það sem jákvæðan þátt að velgengni íslenskra stúlkna í knattspyrnu hefur fengið nokkuð veglega umfjöllun og áhugi kvenna og stúlkna á íþróttinni hefur aukist mjög mikið í kjölfar þessarar velgengni kvennalandsliðsins.

Það kom fram í greinargerð þegar hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir mælti fyrir málinu áðan að íþróttafélögin halla líka á stúlkurnar og konurnar. Og við sem höfum fylgst með börnunum okkar í íþróttaiðkunum höfum tekið eftir því að stúlkurnar fá minni og verri tíma til æfinga. Þær eru því miður látnar mæta afgangi og nánast sitja á hakanum hjá íþróttafélögunum.

Það hefur líka komið fram varðandi umfjöllun um félagslegan vanda og þau vandamál sem unglingar hafa átt í t.d. varðandi vímuefnaneyslu og afbrot, að þar séu ákveðin tengsl milli íþróttaiðkunar og þeirra sem lenda í þessu, þ.e. með öfugum formerkjum. Þeir sem stunda íþróttir lenda síður í vímuefnaneyslu og afbrotum.

Bágur fjárhagur heimilanna í dag er einnig ein af ástæðum þess að unglingar taka ekki þátt í íþróttastarfi. Það hefur iðulega komið fram í umræðunni að foreldrar treysta sér ekki til þess að styðja börnin sín í íþróttaiðkun því að þetta eru orðin töluverð útgjöld fyrir fjölskyldu. Og eins og kom fram áðan í umræðunni, lendir það mjög oft á stúlkum að þurfa að kosta sína íþróttaiðkun sjálfar með alls konar sjálfboðastarfi í íþróttafélögunum. Það er heldur ekkert í samfélaginu sem hvetur þær til dáða í íþróttaiðkunum. Því er full ástæða til þess að hvetja hið opinbera til að koma jafnvel fjárhagslega til móts við konur og stúlkur varðandi íþróttaiðkanir, þannig að hlutur þeirra verði réttur í íþróttastarfi. Slík tímabundin mismunun mundi áreiðanlega færa kvennaíþróttir nær íþróttum karla í mikilvægi, bæði hjá íþróttafélögunum og hjá fjölmiðlunum eða íþróttafréttamönnunum Þetta mætti þá flokkast undir jákvæða tímabundna mismunun til að rétta hlut kvenna sem hefur oft verið rædd hér varðandi jafnréttismál.

Eins og segir í greinargerðinni með þessari þáltill., þá kemur fram í skoðanakönnun sem er birt með að yfir 70% þeirra sem tóku þátt í henni telja að kvennaíþróttir fái of litla umfjöllun í fjölmiðlum. Þetta er sambærileg niðurstaða og hefur komið oft fram í könnunum.

Það er líka athyglisvert að sjá hver hlutur kvenna er í íþróttaiðkunum og kemur hér fram í töflunum. Það eru sláandi upplýsingar. En af því að við vorum að tala um forvarnir, þá vil ég aðeins minnast á það að heilbrigðisyfirvöld sem vilja leggja áherslu á forvarnir eiga auðvitað að beita sér fyrir því að það verði ákveðin markviss stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna og ég er sannfærð um það að árangurinn mun verða til hagsbóta, bæði fyrir konur, karla og samfélagið allt og ekki síst fyrir ríkiskassann með minni útgjöldum til heilbrigðismála, félagsmála og annarrar samfélagsþjónustu.