Stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:31:30 (667)

1995-11-02 15:31:30# 120. lþ. 25.3 fundur 61. mál: #A stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna# þál., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:31]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri þáltill. sem hefur verið lögð fram og tek heils hugar undir þau meginsjónarmið sem þar hafa komið fram hjá þeim ágætu þingkonum sem hafa lagt þetta fram. Það má segja að það sé því miður ástæða til þess að á þessu sé tekið. Að sjálfsögðu hefðum við viljað að jafnrétti á þessu sviði sem öðrum væri með þeim hætti að ekki þyrfti að koma til neinna ábendinga eða afskipta Alþingis en svo er nú eigi að síður. Ég tel að með skipun nefndar eða afskiptum ríkisvaldsins og Alþingis af þessu máli sé stutt við þá þróun og ánægjulegu hreyfingu sem er í raun og veru í þjóðfélaginu.

Stúlkur eru æ meir að taka þátt í keppnisíþróttum og þar sem ég þekki best til í Ungmennafélagi Íslands, og þar einna helst á landsmótum, þá er beinlínis unnið að því í starfinu að fá konur sem allra mest til þátttöku í keppnisíþróttunum. Landsmótsnefnd, landsmótshaldari og aðrir sem koma að þessu hafa verið vakandi yfir því að konur fengju þar sem allra mestan og bestan hlut og ykju þátttöku sína. Því miður má sjá á þeim mótum hvernig konum hefur verið mismunað þar sem þær hafa lengst af þurft að sætta sig við það svo að ég nefni dæmi að keppa í handbolta á lélegum malarvöllum utan húss. Slíkt held ég að karlmönnum yrði aldrei boðið á mótum sem þættu nokkurs nýtileg. Ég veit að Íþróttasamband Íslands er sömuleiðis vakandi yfir þessu þó að ég nefni hérna sérstaklega starf Ungmennafélags Íslands á þessu sviði.

Ég held að þátttaka kvenna í keppnisíþróttunum sé í samræmi við það sem á öðrum sviðum er þó að það sé ekki umræðuefni hér en konur eru nú að ryðjast og brjótast inn í hvert karlavígið á fætur öðru á skyldum sviðum. Þær hafa mætt til leiks í björgunarsveitum, þær hafa mætt til leiks í klifri, jöklaferðum, skíðaferðum og öðrum slíku þar sem ég þekki nokkuð til. Alls staðar eru þær að koma og sums staðar hefur verið fyrirstaða fyrir þeim á þessum sviðum, svo sem í björgunarsveitunum. Þangað hafa þær brotið sér leið og er alveg sjálfsagt að styðja þær í þessu eins og í íþróttunum líka.

Það er einn þáttur þessara mála sem ég vildi vekja sérstaka athygli á en það eru almenningsíþróttirnar. Þá er ég ekki að tala um brotthvarf heldur er ég einmitt að tala um aukna þátttöku. Það hafa orðið mikil kynslóðaskipti í landinu sem betur fer hvað þetta varðar. Konur eru að koma mjög til leiks í almenningsíþróttum. Fjöldi kvenna er æ meiri í hlaupum, skokki og öðrum almenningsíþróttum og þarf ekki að nefna sérstakt kvennahlaup eða Reykjavíkurmaraþonið til þess að finna einu dæmin um þetta. Þarna er mjög ánægjulegur þáttur á ferðinni sem ég tel að það nefndarstarf, sem væntanlega fer af stað, ætti að hafa auga á og styðja hvað mest.

Einn þátt hvað varðar íþróttir og líkamsrækt vildi ég nefna og það er sjálfsmynd, sjálfstraust. Þátttaka kvenna í íþróttum, hvort sem er almenningsíþróttir eða keppnisíþróttir, er einhver sú besta leið sem konur geta fundið til þess að styrkja sjálfsmynd sína, ekki endilega til auglýsingar í fjölmiðlum eða öðrum stöðum, heldur fyrir þær sjálfar til eflingar bæði andlegum og líkamlegum þroska. Þarna er mjög mikil og sterk hreyfing á ferðinni sem ég tel að þetta starf ætti að hafa auga á.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að ríkisvaldið hefur að sjálfsögðu ekki nema takmarkaða möguleika til beinna afskipta í þessu og má deila um hversu mikið það eigi að vera og hvernig það komi að fjölmiðlum. Að sjálfsögðu þurfa fjölmiðlar að leggja sitt af mörkum en ég held að besta leiðin sé sú sem hérna hefur verið nefnd af mörgum að styrkja og treysta þær hreyfingar í íþróttum sem eru þegar starfandi á þessu sviði og þar nefni ég þessar tvær stóru heildarhreyfingar, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasamband Íslands.

Ég vil að lokum ítreka að ég styð eindregið þau meginsjónarmið sem hafa komið fram og fagna þáltill. frá flutningsmönnum.