Mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 15:52:58 (671)

1995-11-02 15:52:58# 120. lþ. 25.4 fundur 72. mál: #A mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[15:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég heyri að ég og hæstv. ráðherra erum alls ekki sammála um eðli þessarar tillögu. Ég sagði einmitt áðan að fjölmiðlastefna sú sem rekin er, er pólitísk stefna. Í raun er það ákveðin stefna að vera með enga stefnu, passífa fjölmiðlastefnu eins og hæstv. ráðherra orðaði það. Það er pólitísk stefna að vera afskiptalaus. En hér er verið að fara fram á að nefnd skoði hvaða stefnu mönnum ber að hafa. Það er ekki verið að taka afstöðu til þess hvernig sú stefna eigi að vera en það eru nefnd atriði sem nefndin getur haft að leiðarljósi við sína vinnu. Og varðandi virka fjölmiðlastefnu, þá er komin á virk fjölmiðlastefna í nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi. Það er auðvitað hægt að fara margar leiðir í að móta stefnu eins og gefur að skilja og menn eru að ræða þetta hérna í nágrannalöndum okkar. Ég get nefnt sem dæmi norsku leiðina. Norðmenn hafa ákveðið að fara þá leið að reka ríkisútvarp eins og við gerum, og að styðja við blaða- og tímaritaútgáfu með beinum fjárframlögum. Þau blöð sem standa höllum fæti fá hæstu styrkina, sérstaklega dagblöð úti á landsbyggðinni sem orðið hafa undir í samkeppni við annað blað á staðnum. Norðmenn halda því fram að það sé nauðsynlegt að gefa út a.m.k. tvö blöð á hverjum stað, eitt öflugt dagblað sé verra en ekkert með tilliti til lýðræðisins. Enda er það þannig í Noregi að þar eru gefin út einna flest dagblöð á Vesturlöndum. Þar er dagblaðalestur mjög útbreiddur. Þetta er dæmi um það hvað er inni í opinberri fjölmiðlastefnu Norðmanna sem er mun víðtækari og er gerð nokkur grein fyrir henni í greinargerðinni með þessu máli. Bæði í Svíþjóð og Danmörku er verið að vinna að mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun, þannig að mér finnst ástæðulaust að vera að gera lítið úr þeirri vinnu og þessari tillögu sem lögð er hér fram, þar sem mælst er til þess að nefnd íhugi þetta mál og skoði stefnumótun hér á Íslandi sem ég tel fulla ástæðu til að verði gert.