Þingfararkaup og þingfararkostnaður

Fimmtudaginn 02. nóvember 1995, kl. 17:05:22 (674)

1995-11-02 17:05:22# 120. lþ. 25.5 fundur 84. mál: #A þingfararkaup og þingfararkostnaður# (skattskylda starfskostnaðar) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur


[17:05]

Frsm. meiri hluta (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1985.

Nefndin fjallaði um málið á nokkrum fundum og fékk á fund til sín hæstv. forseta Alþingis, Ólaf G. Einarsson, Snorra Olsen ríkisskattstjóra, Steinþór Haraldsson, yfirlögfræðing hjá embætti ríkisskattstjóra, Björn Grétar Sveinsson, formann Verkamannasambands Íslands, og frá Alþýðusambandi Íslands þá Benedikt Davíðsson forseta, Gylfa Arnbjörsson hagfræðing og Ara Skúlason framkvæmdastjóra.

Um frv. urðu allmiklar umræður í nefndinni. Frv. felur í sér að sú kostnaðargreiðsla sem var samþykkt á þinginu í vor yrði skattskyld nema að því marki að lagðar séu fram nótur eða reikningar fyrir þeim kostnaði sem lagt er út fyrir. Það varð niðurstaðan í umfjöllun meiri hlutans í nefndinni að eðlilegt væri í framhaldi af þessari breytingu að það væru eins konar þrjár leiðir sem fara mætti í þessu sambandi. Ef þingmenn tækju út þennan kostnað án þess að framvísa reikningum væri dregin af því staðgreiðsla og þetta yrðu skattskyldar tekjur eða endurgreiðsla á kostnaði og yrði meðhöndlað þannig. En eins og kom fram í reglum forsætisnefndar kemur til greina að þessi greiðsla yrði greidd gegn framvísun reikninga og þá virkar þetta eins og kvóti upp á 40 þús. kr. á mánuði sem menn gætu framvísað reikningum fyrir.

Ef þingmenn ætla sér að taka út eitthvað af þessum peningum án þess að framvísa reikningum, hvort sem það er að hluta til eða að öllu leyti, verður dregin af því staðgreiðsla og þetta meðhöndlað sem skattskyldar tekjur.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.